Menningarhúsið Hof lýkur sínu þriðja starfsári í júní með glæsilegum tónleikum bresku rokkhljómsveitarinnar Jethro Tull. Hljómsveitarmeðlimir bætast þar með í hóp þeirra nær þrjú þúsund listamanna úr öllum listgreinum sem hafa komið fram í Hofi í vetur. Framkvæmdarstjóri Hofs, Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, fagnar aðsókn sem hún kallar frábæra þriðja árið í röð og „hallalausum rekstri“. Hún segir þó enn sóknarfæri í starfseminni, meðal annars í ráðstefnu og fundahaldi, sem mikilvægt sé að nýta enda er líklegt að það smiti út frá sér og hafi töluverð áhrif á samfélagið allt.
45 ára ferill!
Meðlimir bresku sveitarinnar Jethro Tull fara yfir nær fjörtíu og fimm ára feril sinn á tónleikum 7. júní nk. Þetta er í fyrsta sinn sem erlendar rokkstjörnur sem þessar koma fram í Hofi og má búast við einstakri upplifun í stóra sal Hofs þegar að söngvari hljómsveitarinnar Ian Anderson þenur raddböndin og dregur fram þverflautuna þess á milli. Nær uppselt er á tónleikana.