KA tekur á móti Leikni úr Breiðholtinu í 15. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í dag. Að venju er leikið á Akureyrarvelli og hefst leikurinn klukkan 16.00.
Fyrir KA-menn, sem ætla sér upp um deild, er þessi leikur gríðarlega þýðingarmikill. Liðin eru jöfn að stigum, bæði lið hafa 22 stig í 6.-7. sæti. Stutt er bæði upp og niður en vinni KA leikinn jafna þeir Grindavík að stigum í 2. sæti.
Síðast þegar þessi lið mættust vann Leiknir 2-1 sigur á Leiknisvelli. Þar léku KA-menn ágætan leik en tvenn mistök í vörn þeirra gáfu Leiknismönnum mörkin á færibandi. Leiknir hefur unnið tvo síðustu leiki sína á meðan KA gerði jafntefli í síðasta leik gegn KF á heimavelli. Bjarki Baldvinsson mun taka út leikbann eftir að hann fékk rautt spjald gegn KF en Bjarni Jóhannsson, þjálfari KA, verður kominn aftur á hliðarlínuna en hann var fjarri góðu gamni gegn KF.
Eins og fram kemur að ofan hefst leikurinn klukkan 16.00 en 45 mínútum fyrir leik ætla KA menn að kveikja á grillinu og geta áhorfendur keypt grillaða hamborgara á vægu verði.