
Orri Sigurjónsson, Hlynur Atli Magnússon og Baldur Sigurðsson takast á um boltann. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Í kvöld mættust lið Þórs og KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Leiknum lyktaði með 3-1 sigri gestanna úr Vesturbænum en tvö marka þeirra komu af vítapunktinum.
Ágætlega var mætt í blíðskaparveðri á Þórsvöllinn í dag og lagði fólk leið sína óvenju snemma á völlinn en klukkustund áður en aðal leikurinn átti að hefjast mættust „kempulið“ Þórs og KR í minningarleik um Guðmund Sigurbjörnsson, fyrrum formann Þórs. Sá leikur fór 3-2, KR í vil þar sem að Sigurvin Ólafsson skoraði tvö af mörkum KR.
Að mati margra var „kempuleikurinn“ meiri skemmtun en fyrri hálfleikur aðalliðanna en heldur rólegt var í tíðinni. KR-ingar voru meira með boltann, án þess þó að skapa sér hættuleg færi. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks dró þó til tíðinda þegar að Emil Atlason krækti í vítaspyrnu fyrir KR. Ingi Freyr Hilmarsson braut á honum innan teigs og dæmdi Rauði Baróninn, Garðar Örn Hinriksson, vítaspyrnu. Á punktinn fór Bjarni Eggerts Guðjónsson og skoraði af miklu öryggi. KR-ingar fóru því með 1-0 forystu inn í leikhlé.
Síðari hálfleikurinn var mun fjörugri en Þórsarar áttu þó heldur erfitt með sóknarleik sinn, enda voru þeir Chuck og Jóhann Helgi Hannesson ekki í liði Þórs í dag. Það kom þó ekki að sök þegar að fyrirliði Þórsara jafnaði metin, 1-1. Sveinn Elías Jónasson skorað þá flott mark framhjá landsliðsmarkverði Íslendinga, Hannesi Þór Halldórssyni. Aðeins nokkrum mínútum eftir að Sveinn hafði jafnað fyrir Þórsara komust KR-ingar aftur yfir og var þar að verki Óskar Örn Hauksson sem skoraði laglegt mark. Óskar Örn var síðan aftur á ferðinni tólf mínútum fyrir leikslok þegar hann innsiglaði 3-1 sigur KR með marki úr vítaspyrnu en áhorfendur á Þórsvelli vildu meina að Gary Martin, KR-ingur, hefði fallið heldur auðveldlega inn í vítateig Þórsara. Lokatölur þó 3-1 og KR aðeins einu stigi frá FH á toppi deildarinnar á meðan Þór er í 9. sæti enn með 13 stig og aðeins þremur stigum frá fallsæti eftir úrslit kvöldsins.
-SMS
Myndir: Sævar Geir Sigurjónsson







