Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Mest atvinnuleysi hjá ungum mæðrum

$
0
0
Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra

Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra

Atvinnuleitendum á Akureyri og Norðausturlandi hefur fækkað hægt og rólega frá því að hámarks atvinnuleysi mældist í febrúar 2009 eða 13,2% en mældist 3% í sl. júní mánuði. Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra, segir batann vera hægan og heilbrigðan. Það séu þó ekki allir jafn vel í stakk búnir til þátttöku á vinnumarkaði í kjölfar atvinnuleysis, og hér á Akureyri virðast það vera ungar mæður sem sitja helst eftir á atvinnuleysisskrá.

Gerum allt til að forðast evrópskar atvinnuleysistölur
Skrifstofa Vinnumálastofnunar á Akureyri tekur nú þátt í Evrópsku verkefni sem miðar að því að auka atvinnuþátttöku ungs fólks. „Við sjáum tölur frá Evrópulöndum þar sem mælist allt upp í 50% atvinnuleysi á meðal ungs fólks og við ætlum ekki að fara þangað. Innan Norðurlandanna er líka orðið mikið atvinnuleysi hjá ungu fólki, hæstu töluna sjáum við í Svíþjóð þar sem það mælist nálægt 25%. Við ætlum að gera allt sem hægt er til að forðast þetta,“ segir Soffía. Hún bendir á að Finnar hafi náð tökum á atvinnuleysi ungs fólks en það var í efnahagskreppu upp úr 1990 sem þeir misstu nánast heila kynslóð í langtíma atvinnuleysi og það fólk, sem er orðið fullorðið í dag, hefur í mörgum tilfellum aldrei farið inn á vinnumarkaðinn og er ennþá á framfæri hins opinbera. Finnar lærðu af þeirri reynslu og nú er ástandið meðal ungs fólks mun betra þar.

„Við byrjuðum strax og kreppan hófst að vinna gegn því að lenda á sama stað og aðrar evrópuþjóðir og höfum alltaf beint mestu athyglinni að yngsta hópnum, 17-24 ára, en það hefur komið niður á aldurshópnum 25-30 sem hefur ekki fengið þessa sömu þjónustu. Nú höldum við yngsta hópnum í skólunum en stærsti hópurinn á atvinnuleysisskrá núna eru ungar mæður á aldrinum 25-35 sem af einhverjum ástæðum fara ekki út á vinnumarkaðinn eftir barneignir,“ segir Soffía.

Hvaða leiðir sjáið þið fyrir ykkur til að ráða bót á þessu?

„Við viljum fá fyrirtæki á svæðinu í lið með okkur og fá þau til að taka inn starfsfólk af atvinnuleysisskrá þar sem er sérstaklega hugað að stuðningi við nýja starfsmanninn. Það er mjög algengt á vinnumarkaðnum að fólki er bara hent út í djúpu laugina og það þarf að bjarga sér mikið sjálft og ef það gengur ekki þá er viðkomandi kannski bara látinn fara eftir stuttan tíma. Það þarf að gera þetta skipulegar og taka því sem verkefni innan fyrirtækisins að styðja við nýja starfsmanninn. Til dæmis er hægt að setja upp svokallað mentorakerfi, þar sem einn starfsmaður sér um að veita nýja starfsmanninum stuðning, það getur t.d. verið einhver sem er eldri því þá um leið byggjum við brú milli kynslóða. Það er nefninlega stundum eins og ungt fólk hræðist eldra fólk“.

Njóta lítils stuðnings frá foreldrum
„Aðstæður ungra atvinnuleitenda eru misjafnar, sum þeirra eiga afbrotasögu og hafa ekki traust og þá er spurning um að finna einhvern þarna úti sem vill gefa þeim tækifæri. Sum eru með geðræn vandamál og eiga erfitt, detta inn og út úr atvinnu, en svo er sá hópur sem ég hef hvað mestar áhyggjur af en það er ungt fólk sem hefur lélegt bakland. Þau hafa oft ekki stuðning frá foreldrum, það er enginn að ýta þeim áfram, gera kröfur og kannski hjálpa þeim að finna sér vinnu eða styðja við þau í skóla. Þau eru hálf umkomulaus og það gengur oft voðalega illa hjá þeim en það þarf ekki endilega mikið til að koma þeim á rétt ról, það getur verið nóg að hafa stuðning frá einhverjum á vinnustaðnum og það er þar sem þetta mentorakerfi inni á vinnustað getur gert svo mikið. Bara að það sé einhver sem þau geta treyst og er ekki sama um þau, einhver sem hringir kannski ef þau mæta ekki í vinnuna, í stað þess að foreldrar bara leyfi þeim að sofa allan daginn. Þessi hópur endurspeglar mismunandi aðstæður ungs fólks og mismunandi stuðning sem þau njóta frá heimili.

Hvað eru þetta margir sem flokkast sem ungir atvinnulausir?
Það eru 63 sem eru undir 25 ára en svo eru næstum jafn margir á aldursbilinu 25-39. Svo það er til mikils að vinna að aðstoða þetta fólk við að komast út á vinnumarkaðinn. Við búum svo vel hér á landi að það er mjög auðvelt fyrir fyrirtæki að fá samninga við okkur, lagaumhverfið er mjög skýrt með það, það er alls ekki sjálfgefið annarsstaðar í Evrópu. Ef við náum fyrirtækjunum á okkar band og þau eru tilbúin til að gefa þessu fólki tækifæri og leggja sitt að mörkum með því að taka vel á móti starfsmanninum þá ætti að vera hægt að gera mikið fyrir þennan hóp.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718