Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir er kundalini jógakennari og hefur haldið fjölbreytta jóga- og hugleiðsluviðburði á Akureyri og víðar um landið í sumar og má þar nefna fjölskyldujóga, gongslökun í sundlaug, hugleiðslunámskeið.
Arnbjörg er fædd og uppalin í Skagafirði en bjó lengi á Akureyri og lærði hér m.a. grafíska hönnun í Myndlistaskólanum. Hún starfar sem jógakennari og bowentæknir bæði á Akureyri og í Reykjavík og ferðast því reglulega á milli landshluta. Nú hefur Arnbjörg gefið út bók sem ber heitið Hin sanna náttúra þar sem hún hefur valið 24 staði víðsvegar um landið og valið þær hugleiðslur sem henni finnst passa best á hverjum stað.
Hvaðan kom hugmyndin að þessari bók?
„Hún kviknaði allt í einu, og þegar ég hugsaði betur um hana þá fann ég að þetta væri gott að gera. Við erum alltaf að vinna með okkur sjálf og leita að leiðum til að líða betur og það er mikilvægt fyrir hvert og eitt okkar að hafa tengsl við náttúruna því upp úr henni erum við öll sprottin þó við búum núna í steinhúsum og séum mörg komin ansi langt frá henni. Við þurfum á tengingu við náttúruna að halda til að auka vellíðan okkar og hugleiðsla er björt og falleg leið til að tengjast náttúrunni og efla náttúruvitundina,“ segir Arnbjörg.
„Það eru ótal hugleiðslur til og þær hafa misjafnan tilgang. Sumar eru til að losa streitu, aðrar til að finna frið, meira jafnvægi, meiri kærleika, hamingju eða bjartari framtíð. Við erum svo heppin að hafa náttúruna við hendina og getum notað hugleiðsluna til að tengjast henni enn betur. Ég fór um allt land og valdi þá staði sem höfðu mest áhrif á mig og valdi þær hugleiðslur sem mér fannst eiga vel við á hverjum stað, ég notaði hjartað og innsæið til að velja þetta saman,“ segir Arnbjörg en bætir því við að bókin sé fyrst og fremst hugsuð sem innblástur og fólki sé alveg frjálst að nota þær hugleiðslur sem því sjálfu finnst passa best á þeim stöðum sem því finnst passa best. „Þetta er bara mín tillaga um hvernig hægt er að nálgast náttúruna og vera hér og nú, en tengsl okkar við náttúruna eru ólík og mikilvægast er að hver og einn finni sín tengsl eins og honum hentar.
„Þetta getur verið skemmtileg leið til að gera eitthvað öðruvísi á ferðalaginu. Hugleiðsla er fyrir alla og ef fjölskyldan er á ferðalagi getur verið mjög gefandi að setjast niður og hugleiða saman, þetta er líka öðruvísi leið til að skoða landið og tengjast stöðunum.
Í tilefni útgáfunnar heldur Arnbjörg hugleiðsluviðburð í Kjarnaskógi á morgun, sunnudaginn 21. júlí, kl. 13-15. „Kjarnaskógur er einn staðanna sem ég fjalla um í bókinni og á morgun segi ég frá þeim kafla. Þemað er tré og er sagt að Búdda hafi fæðst undir tré, uppljómast undir tré og til er frásögn af því að það hafi 4 tré fölnað nálægt staðnum þar sem hann yfirgaf þennan heim. Við ætlum því að hugleiða innan um trén í Kjarnaskógi og gerum 2 hugleiðslur. Sú fyrri var kennd af Búdda og er til að færa okkur kyrrð og sú seinni fyrir hlutlausan huga. Einnig fræði ég þátttakendur um grunnatriði hugleiðslu og í lokin verður slakað á við heilandi tóna gongsins. Allir eru velkomnir, byrjendur sem lengra komnir, og gott er að taka með sér púða, teppi og vatnsflösku.
Bókin kemur út hjá bókaútgáfunni Sölku og er væntanleg í bókabúðir eftir helgi. Nánari upplýsingar um bókina má finna hér.