Nú er ég nýlega flutt hingað norður, u.þ.b. hálft ár síðan. Ég tel mig vera góðan ökumann, ber virðingu fyrir öðrum í umferðinni, legg bíl mínum rétt í stæði, þ.e. gæti þess að vera innan þeirra marka sem sett eru ökutækjum og fer eftir lögum og reglum.
Mér blöskrar þó hversu mikið virðingarleysi virðist vera í gangi hér. Á innan við tveim mánuðum er í tvígang búið að tjóna bílinn minn, í annað skiptið sá töluvert á bílnum og af og frá að ökumaðurinn hafi ekki orðið var við áreksturinn. Í bæði skiptin var keyrt burt, samviskulaust og ég sit uppi með tjónaðan bíl sem sífellt fellur meira í verði fyrir vikið.
Við hjónin urðum einnig vitni að svona atburði. Kona bakkaði bíl sínum út úr stæði við Glerártorg og var ekkert að flýta sér. Hún bakkaði á bíl, svoleiðis að hún hefur án nokkurs vafa fundið fyrir því, horfði í kring um sig og sá okkur horfa á sig, ók svo í sömu rólegheitunum af vettvangi, án þess svo mikið sem að horfa um öxl. Við tókum að sjálfsögðu niður númer bílsins og tilkynntum til lögreglu.
Hvar er samviska fólks í dag? Er engin virðing eftir fyrir náunganum? Það er alveg ólýsanlega súrt að koma að bíl sínum, tjónuðum, engin vitni og enginn gengst við verknaðinum.
Við getum öll lent í því að tjóna annan bíl. En sýnum ábyrgð og látum vita, hvort sem við erum vitni eða gerendur. Það er það sem við viljum að væri gert ef við yrðum fyrir tjóninu, ekki satt?
Hafdís Helgadóttir