Vinir Akureyrar, sem eru aðstandendur Einnar með öllu hátíðarinnar sem haldin verður á Akureyri um Verslunarmannahelgina, sendu frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem ítrekuð er sú áhersla sem lögð er á að fjölskylduhátíðin Ein með öllu gangi sem best fyrir sig.
„Hátíðin hefur farið vel fram í góðri samvinnu Vina Akureyrar við fjölda aðila og samtaka og má þar meðal annars nefna Aflið – samtök gegn kynferðis og heimilisofbeldi, en núna viljum við styrkja samstarfið við Aflið enn frekar, meðal annars með því að Aflið verði enn sýnilegra en áður og hafi bækistöð í miðbænum á meðan á hátíðinni stendur. Þar mun vera vettvangur fyrir þá sem þurfa að leita til Aflsins, auk þess sem samtökin munu selja þar armbönd merkt átakinu „segðu frá“,“ segir Pétur Guðjónsson, einn af Vinum Akureyrar.
„Við erum líka í samstarfi við forvarnarfulltrúa Akureyrarbæjar og leggjum mikla áherslu á að unnið sé í samræmi við forvarnastefnu bæjarins. Mikið er lagt upp úr því að hátíðin sé fjölskylduhátíð og að dagskráin höfði til allra aldurshópa,“ segir Pétur og bætir því við að verslunarmannahelgin og hátíðarhöld í kringum hana hafi í gegnum tíðina haft skuggahliðar þar sem borið hefur á því að þátttakendur í hátíðarhöldum verði fyrir kynferðisofbeldi. „Við tökum skýra afstöðu gegn ofbeldi og teljum mjög mikilvægt að mikilvægt er að vinna markvisst gegn þeim vandamálum sem gjarnan hafa fylgt hátíðarhöldum um verslunarmannahelgi“.
„Það er von okkar að bæjarbúar og gestir fjölskylduhátíðarinnar Ein með öllu verði samtaka í að njóta dagskrárinnar og leggja sitt af mörkum við að láta hátíðina ganga vel, svo verslunarmannahelgin skilji eftir góðar minningar“.