Mikil gróska einkennir Akureyri og Norðurland þessa dagana. Í Listagilinu fór um helgina fram einstæður listviðburður þegar Aðalheiður Eysteinsdóttir kom sá og sigraði með kindurnar sínar. Sjón er sögu ríkari og skorar blaðið á lesendur að líta við í Gilinu. Sagt hefur verið að aldrei hafi Akureyringar sést glaðari en á laugardagskvöld þegar sýning Aðalheiðar var opnuð. Prik fær Sjónlistamiðstöðin og allir sem komið hafa að uppsetningum.
Gróskan þessa dagana nær einnig til annarra atvinnuvega en listsköpunar. Fyrir skemmstu hóf nýtt hvalaskoðunarfyrirtæki starfsemi sína hér í bæ og setur skip þess skemmtilegan svip á bryggjulífið. Farþegi sem fór í hvalaskoðun um helgina segir að ekki hafi bara sést hnísur milli Hríseyjar og Akureyrar heldur einnig búrhvalur. Allt eins og best gat orðið og leiðsögn og þjónusta um borð af faglega taginu að sögn farþegans.
Þá fór flugdagurinn mikli fram á Akureyri með miklum bravúr. Sama dag var sleginn nýr tónn í ferðaþjónustu þegar þyrluflug hófst á Akureyri fyrir ferðamenn. Oft hefur verið haft á orði að einhæfni í ferðaþjónustu sé vandamál hér á land en nú er komið á móts við slíka gagnrýni. Eina spurningin sem kviknar er hvort hljóðmengun gæti gert hefðbundnu göngufólki á fjallasvæðum gramt í geði þegar flogið er nálægt fjallstoppum.
Mörg fleiri dæmi mætti nefna um bjartsýni og uppgang þessa dagana. Má staðhæfa að Akureyri skarti sínu besta í blíðviðri og hugmyndaauðgi síðustu daga. Svo jákvæðir eru bæjarbúar orðnir að Lof og last dálkurinn verður lastlaus þessa vikuna. Þetta er mikil breyting síðan ullarnærföt voru staðalbúnaður í allan vetur. Þá barst ritstjórn dagsins oftar last frá lesendum en lof. Nú eru breyttir og betri tímar.
Þó er ein stétt fólks í þessu héraði sem á við nokkurn vanda að glíma. Það eru bændur og þá ekki síst sauðfjárbændur. Í fyrrasumar kom slæmt vorhret í sauðburði, svo brunnu tún í þurrkum sumarsins, aftakavetur hófst í byrjun september þegar þúsundir fjár fennti og síðan kom lengstur snjóavetur. En blíðan undanfarið bætir geð og atvinnuskilyrði bænda. Grasspretta er góð og snjórinn í fyrrvetur er nú ekki alslæmur því nóg verður til af vatni á afréttum til fjalla í sumar. Fé mun koma sælt og vænt af fjalli eins og kindurnar hennar Öllu Eysteins. Vonandi tekst að græða kalin tún, því Akureyri vikublað er nefnilega sammála Aðalheiði Eysteinsdóttur um mikilvægi íslensku sauðkindarinnar í menningu okkar. Að eiga lambakjöt sem nálgast að vera með villibráðarbragði er enn þann dag í dag hreint ómetanlegt.
Með ritstjórakveðju
Björn Þorláksson