Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Málverk – Nýsköpun

$
0
0
Kristján Helgason

Kristján Helgason

Síðasti sýningardagur málverkasýningar Hjördísar Frímann í Ketilhúsinu er sunnudagurinn 16. júní. Drífið ykkur. Hjördís er í flokki bestu málara landsins og sýningin er fjölbreytt, frumleg og djörf. Nei, hér eru engar píkur, en Hjördís sýnir það áræði að kanna stöðugt nýjar lendur í stað þess að endurtaka það sem best hefur fallið í kramið til þessa. Myndlist er frumkvöðlastarf. Myndlist skiptir máli. Hjördís er sprotafyrirtæki. Á þessari sýningu má sjá ferska nýsköpun, liti, rými og form sem aldrei hafa verið til áður. Hér má sjá stærsta verk hennar til þessa, tæplega fjögurra metra hátt málverk sem hangir í lausu lofti í miðjum salnum. Hér má líka sjá tilraunir Hjördísar til að gera málverkin þrívíð, svört hringlaga form hoppa út úr myndfletinum og breytast í svartar kúlur á sveimi í kringum verkið. Hér má líka sjá nokkur eldri verk, ljóðrænar konur, svífandi í ævintýralegu landslagi, í bland við ferska hönnun, þar sem ljósmyndir af eldri verkum eru hráefni í litlar krúttlegar spiladósir, sem henta vel léttum pyngjum. „Er þetta sölusýning?“ Nei, nei, myndlistarmenn eru einu sprotafyrirtæki á Íslandi sem lifa í algjöru lofttæmi þar sem peningar skipta engu máli. Auðvitað er þetta sölusýning og peningar hafa hvetjandi áhrif á frumkvöðlafyrirtæki. Einstaklingar og fyrirtæki athugið, kaup á myndlist er góð fjárfesting í íslensku hugviti! Svo er líka ókeypis inn á safnið. : )

Mynd eftir Hjördísi Frímann

Mynd eftir Hjördísi Frímann

Myndlist er ekki til, nema…
Það sem ekki birtist í fjölmiðlum í dag „er ekki til“. Í þessum skilningi er íslensk myndlist í útrýmingarhættu. Í þessu ágæta blaði var frétt um opnun sýningar Hjördísar Frímann fyrst til að fjúka þegar auglýsingar bættust við á síðustu stundu. Fyrir lesendur blaðsins var hún því einfaldlega ekki til. Spurning um forgangsröðun? Heimsfrumsýning íslensks sprotafyrirtækis á nýjustu afurðum sínum er stór frétt. Og hún kallar líka á faglega sjálfstæða umfjöllun fjölmiðla. Slík umfjöllun, stundum kölluð gagnrýni, ætti að vera fastur liður í bæjarblöðum og dagblöðum á landsvísu. Myndlist er vannýtt auðlind, myndlist skiptir máli. Sýnum henni áhuga, veitum henni athygli. Förum á sýningar og leyfum myndlistinni að snerta við huga og hjarta. Þar sem allir hafa bæði þessi líffæri, hafa allir „vit á myndlist“ á sinn hátt. Tökum þátt í íslenskri nýsköpum og látum okkur myndlist varða. Síðasti sýningardagur málverkasýningar Hjördísar Frímann í Ketilhúsinu er 16. júní.

Kristján Helgason


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718