Nú um helgina er fyrsti opnunardagur kaffihússins Uglunnar sem staðsett er í Gamla barnaskólanum að Skógum í Fnjóskadal en það er Agnes Þórunn Guðbergsdóttir sem rekur kaffihúsið í sumar en Agnes er kennari og skógarbóndi og rekur einnig ásamt manni sínum tjaldsvæðið í Systragili.
Kaffihúsið er staðsett í kennslustofu Gamla barnaskólans sem starfræktur var í Skógum til ársins 1972. Á kaffihúsinu eru ýmsar listsýningar í sérstökum sýningasal sem og bókasala ein einnig er hægt að fá lánaðar bækur til að lesa með kaffinu. Agnes ætlar að bjóða upp á þjóðlegt og framandi bakkelsi með kaffinu en gestir kaffihússins geta gætt sér á soðbrauði, rúgbrauði, kleinum, pönnukökum, tertum, hrákökum og margvíslegu fleiru góðgæti.
Einnig verða listsýningar og opnaði Anna Elionora Olsen Rosing, fatahönnuður og nemandi við fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri, sýningu sína þar nú um helgina. Anna hefur numið í Greenland Art School, Odense Teknisk skole, Odense Haandarbejds Seminaret og Copenhagen Institute for Design. List hennar er innblásin af náttúrunni og nýtir hún sér efnivið hennar og hefur sérhæft sig í sútun skinna og fiskiroða. Anna segir að sér þyki mikilvægt að miðla áfram lífs-og heimspeki forfeðra sinna því hún ólst upp á meðal grænlenskra fiski-og veiðimanna.
Á Uglunni er einnig til sýnis og sölu handverk eftir Auði Helenu Hinriksdóttur en hún leggur m.a. stund á sandblástur.