Þetta sýróp er dásamlegt út í ískalt vatn með fullt af klaka og myntu, eða sítrónusneið. Þú getur líka notað það minna þynnt út og búið til frostpinna eða sorbet. Það kemur líka skemmtilega á óvart með gini og sódavatni og nokkrum frosnum hindberjum. Uppskriftin er um 1L af þykkni.
Rabarbarasýróp
- 700 gr. rabarbari, skorinn í bita
- 50 gr. engifer, skorinn í sneiðar
- 250 gr. sykur
- 6 dl. vatn
Settu öll innihaldsefnin í pott yfir meðalhita. Það er óþarfi að flysja engiferinn, það er nóg að þvo hann og skera hann bara í sneiðar.
Þegar suðan hefur komið upp lækkarðu hitann undir pottinum og lætur malla rólega í um 20 mínútur. Hrærðu í annað slagið.
Nú á rabarbarinn að verða orðinn að mauki.
Taktu og síaðu vökvann frá. Passaðu þig að merja ekki mikið maukið í sigtinu því að þá færðu skýjað þykkni.
Settu í fallegar flöskur.
Maukið geturðu sett í poka og fryst og átt til að bæta út í rabarbarasultu þegar þú sýður hana næst.
Blandast í hlutföllunum 1:4 eða eftir smekk hvers og eins.
Helga Kvam
allskonar.is