„Ertu ekki spennt að deyja mamma og hitta pabba þinn og Guð?“ spurði sex ára sonur minn á dögunum þar sem við gengum niður Laugaveginn í blíðskaparveðri, sólin brosti eins og nýbökuð móðir sem sér barnið í fyrsta sinn og dauðinn var einmitt jafn fjarlægur og skýin sem höfðu hunskast bak við fjöll og engin saknar á svona dögum. Í raun má segja að drengurinn hafi ómeðvitað sett móður sína í trúar og tilvistarlega klípu því sem prestur er mér falið að boða hinn upprisna Drottinn og blása söfnuði mínum von í brjóst og vissulega liggur mér það mjög á hjarta enda má segja að grundvöllur starfs míns væri heldur veikur ef ég teldi það aukaatriði. En það þýðir hins vegar ekki að ég óttist ekki dauðann og líti bara á hann sem kærkomna gjöf eins og lífið sjálft. Dauðinn er nefnilega ræningi og stundum ótrúlega miskunnarlaus þegar kemur að innbrotum í ástvinahópa. Þess vegna gaf ég drengnum mínum mjög diplómatískt svar þegar ég sagðist ekki vera tilbúin að yfirgefa hann strax en þegar minn tími kæmi væri vissulega huggun að hugsa til þess að mega sameinast þeim ástvinum sem á undan eru gengnir.Drengurinn tók þessu sem gildu svari og varp ég því öndinni léttar enda er hann mjög krefjandi spyrill og tekur oft Helga Seljan á okkur foreldrana, spyr beint og horfir hneykslaður upp á vandræðaganginn ef svörin láta á sér standa.
Þegar heim var komið, tölvan opnuð, alnetið virkjað og fréttirnar lesnar af ástandinu á Gazasvæðinu þar sem sólin skín þrátt fyrir að mæður og feður, fólk eins og ég og þú horfi upp á börn sín drepin og börn upp á foreldra hverfa sömu leið, þá nísti það mig hvað við erum vanmáttug. Og þó ekki. Sem prestur ætti ég að vita það best að það að mæta syrgjendum af samkennd og samlíðan er nokkuð sem skiptir gríðarlegu máli í þeirri vegferð að lifa af. Tilhugsunin um það sem er að eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs og í Úkraínu og víðar um heim, fyllir okkur vanmætti alveg eins og þegar ég stend í prestaskyrtunni í íslensku sorgarhúsi og lít framan í grátbólgin andlit eftirlifenda og ég veit að ég get ekki fært þeim ástvininn aftur. Ég get hins vegar leyft þeim að finna að sorg þeirra sé ekki bara ein sorg af mörgum heldur einstök saga já eins og hvert einasta barn sem fæðist inn í þennan heim og að mig langi til að heyra þessa sögu. Þetta heitir sálgæsla og við getum öll veitt hana hvort sem við erum prestar eða ekki. Hvort sem við erum hér eða á Gaza. Undanfarnar vikur hafa samskiptamiðlar logað af samkennd með bræðrum okkar og systrum fyrir botni Miðjarðarhafs og það er gott, það skiptir máli ,næsta skref er að koma þessum eldmóði til skila á áfangastað og sameinast sem ein þjóð í því að tjá sorg okkar og samlíðan, já láta það berast alla leið á vígvöllinn að okkur sé ekki sama. Það stöðvar kannski ekki stríðið en það getur skipt máli fyrir þolendur í viðureigninni við angistina. Dauðinn er kannski slyngur en það þýðir samt ekki að hann þurfi að sigra.