Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Heilluðust af sæskrímslum

$
0
0

Hjónin Karl-Werner Shulte og Gisela Shulte-Daxboek afhentu kortasafn sitt formlega við hátíðlega athöfn í Minjasafninu í dag, en kortin eru hluti af sumarsýningunni Land fyrir stafni.

Um er að ræða annaðhvort Íslandskort eða Evrópukort með Íslandi á. Það elsta er frá árinu 1547 en það nýjasta frá 19. öld. Karl og Gisela hafa oft heimsótt Ísland í gegnum tíðina og þegar kom að því að velja kortasafninu heimili til frambúðar ákváðu þau að hafa samband við Akureyrarbæ. Í maí árið 2012 komu Karl og Gisela til Akureyrar til þess að ræða möguleikann á að setja upp sýningu hér og í mars árið 2013 hófust viðræður við Minjasafnið. Í apríl sama ár var safninu pakkað niður og það flutt til Íslands.

karl og gisele

Eiríkur Björn Björgvinsson ásamt Gisele Shulte-Daxboek og Karl-Werner Shulte

 „Fyrsta kortið keypti ég árið 1975 því mig langaði að eiga eitthvað sem myndi minna mig á ferðir mínar til Íslands, sagði Karl við athöfnina í Minjasafninu í dag. Hann sagði áhugann á gömlum Íslandskortum hafa vaknað eftir þessi fyrstu kaup og þá var ekki aftur snúið. „Annað kortið fengum við Gisela í pósti sama dag og við giftum okkur, bætti hann við en rétt eins og Karl heillaðist Gisela fljótt af kortunum.

karl

Karl tók til máls við athöfnina í Minjasafninu í dag

Hjónin skráðu sig í ótal félög og höfðu samband við antíksölur um allan heim í leit að Íslandskortum. Smám saman óx safnið en það telur 76 kort. Kortin eru m.a. eftir franska og þýska kortagerðamenn og eru af ýmsum stærðum og gerðum. Oftar en ekki sýna þau óvenjulegt Ísland – jöklar eru á bak og burt en í staðinn fær Hekla að njóta sín. Úti fyrir ströndum Íslands glittir svo í skip, hvali og sæskrímsli. Sumum stöðum, eins og t.d. Skálholti, er gert hærra undir höfði en öðrum með teikningum af stórum og tilkomumiklum byggingum, en hjónin segjast einmitt hafa heillast af þessum óvenjulegu smáatriðum.

Hljómsveit skapandi sumarstarfa flutti tónlistaratriði

Hljómsveit skapandi sumarstarfa flutti tónlistaratriði. Hluti kortanna sjást í bakgrunni.

Sýningin verður opin daglega milli kl. 10-17 til 15. september.

- EMI

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718