Aðkomumönnum sem heimsóttu Grímsey í lok júní blöskraði þegar þeir sáu ástand gámasvæðis og vega. Vegirnir eru orðnir býsna holóttir og gámasvæðið við höfnina, sem blasir við ferðamönnum þegar þeir koma í land, má muna sinn fífil fegurri.
Í fundargerð hverfisnefndar Grímseyjar frá 10. mars síðastliðnum kveður við sama tón. Þar segir m.a. að gámasvæðið við höfnina sé til skammar. Lagt er til að steypt sé plan undir gámana og að settur verði upp veggur með það að leiðarljósi að loka svæðið aðeins af.
Enn fremur er í fundargerð lagt til að Akureyrarbær semji um að vegir verði lagaðir og skorað er á forsvarsmenn bæjarins að beita sér fyrir auknum byggðarkvóta til Grímseyjar. „Þessar úthlutanir eru til háborinnar skammar, ekki síst þegar horft er til nágrannasveitarfélaga,“ segir í sömu fundargerð.
Fyrr á árinu tilkynnti þáverandi bæjarstjórn Akureyrarbæjar að varið yrði tæpum eitt hundrað milljónum króna í sérstakt umhverfisátak árið 2014. Fjárveitingin er ætluð til nýframkvæmda og stofnbúnaðarkaupa á málum sem fyrst og fremst tengjast umhverfismálum í sveitarfélaginu. Hverfisnefnd Grímseyjar fékk úthlutað einni milljón króna.
„Við lögðum til að útbúinn yrði stigi niður á bryggjusvæðið frá minnisvarðanum. Sú tillaga er í skoðun,“ segir Jóhannes Henningsson, formaður hverfisnefndar Grímseyjar.
Aðspurður um ástand gámasvæðisins og vega segir hann nefndina hafa lagt áherslu á að ráðist yrði í framkvæmdir fyrir sumarið, áður en straumur ferðamanna ykist. Það gekk hins vegar ekki eftir.
„Fyrir stuttu var þó byrjað á að holufylla vegina, en það er í sjálfu sér bara skammtímalausn,“ segir Jóhannes. „Um gámasvæðið er svo það að segja að gámarnir sjálfir eru margir án loka og helst myndum við vilja sjá byggt í kringum þá, svona eins og hefur verið gert á Akureyri,“ bætir Jóhannes við en nefndin hefur vakið athygli á slæmu ástandi gámasvæðisins síðustu ár (sjá fundargerðir frá árunum 2012, 2013 og 2014).
„Okkur finnst mikilvægt að hér sé snyrtilegt, sérstaklega þar sem fleiri heimsækja okkur nú en áður, bæði Íslendingar og ferðamenn. Þeir eru flestir yfir sig hrifnir af umhverfinu, en ástandið mætti vera betra,“ segir Jóhannes og segir íbúa leggja sitt af mörkum við það. Haldinn er m.a. rusladagur á vorin þar sem gengið er um byggðina og týnt allt rusl.
„Það er þó líka mikilvægt að benda á það sem vel hefur gengið. Í fyrra var t.d. gert við þakið á sundlauginni en það var orðið ónýtt og loftræstingin í ólagi,“ segir Jóhannes og bendir á að bærinn hafi gengið fljótt í málið.
„Það er hins vegar ekki hægt að horfa framhjá því að það er enn margt sem betur mætti fara. Girðingar eru t.d. í slæmu ásigkomulagi og kindur eru að komast yfir á svæði þar sem þær eiga ekki að vera,“ segir Jóhannes. Hann segir nefndina einnig hafa bent margoft á að þörf sé á úrbótum í skólpmálum eyjarinnar (sjá fundargerðir frá árunum 2012, 2013 og 2014).
„Við höfum einnig vakið athygli á samgöngum til og frá Grímsey. Ferðalögin eru fjölskyldunum dýrar. Hægt væri að koma til móts við heimamenn og niðurgreiða fyrir þá fargjaldið að fullu eða hluta, svona eins og gert hefur verið Í Hrísey – heimamenn fá frítt með ferjunni þar. Þetta er að sjálfsögðu allt spurning um peninga og forgangsröðun,“ segir Jóhannes að lokum.
- EMI