Lögreglan á Húsavík hefur enn ekki rætt við Julius von Bismarck, þýska listamanninn sem grunaður er um að vera viðriðinn náttúruspjöll sem unnin voru í Mývatnssveit í vor. Þetta staðfesti lögreglumaður á Húsavík sem blaðið náði tali af skömmu fyrir prentun. Í samtali blaðsins við lögreglumanninn kom fram að lögregla tæki enn ekki opinbera afstöðu til málsins en það væri í rannsókn og í ákveðnum farvegi. Komið hefur fram að alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra muni fá málið til fullnustu síðar.
Eins og Akureyri vikublað upplýsti í síðustu viku tók Hlynur Hallsson, myndlistarmaður frá Akureyri, myndir af verkum á sýningu í Berlín sem gefa til kynna að Bismarck sé viðriðinn spjöllin. Svör Juliusar hafa verið mótsagnakennd en málið hefur fengið mikla fjölmiðlaathygli. Akureyri vikublað birti einnig nýja mynd af mosaspjöllum á Íslandi en ekki er vitað hvar þau voru framin.
Í pistli sem náttúruunnandinn og rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson ritaði í Fréttablaðið segir:
„Maður hefur séð tilhneigingu til að bera blak af þessum vandalisma með því að benda á að Kárahnjúkavirkjun hafi verið margfalt verri náttúruspjöll. Að vísu, en á ég þá að fingurbrjóta mann og benda svo á að ég hafi þó að minnsta kosti ekki myrt hann? Aðrir hafa sett á tölur um að Íslendingar séu sóðar, sem eflaust má til sanns vegar færa en er varla mosanum að kenna sem slitinn var upp.“
Guðmundur Andri segir að íslensk náttúra veki sterkar tilfinningar í brjósti fólks. Margir líti á hana sem helgidóm sem ekki megi undir nokkrum kringumstæðum gera annað en að tipla hvíslandi umhverfis. Hann spyr hvort lýsa beri náttúru Íslands sem gjörningafrítt svæði.