Sören C. Tversted, kapteinn danska varðskipsins Triton sat fyrir svörum í Að Norðan á N4. Varðskipið lagði að bryggju á Akureyri fyrir hádegi í gær og verður hér til sunnudags.
„Það er nokkuð oft sem við komum hingað til Íslands. Við sinnum eftirliti við Grænland og þar sem hafnirnar við austurströndina eru fáar og lokaðar vegna íss núna, þá komum við til Íslands m.a. til að fylla á birgðir. Langoftast leggjum við þó að í Reykjavíkurhöfn,“ segir kapteinninn.
Í viðtalinu segir Sören frá samstarfi danska flotans og íslensku Landhelgisgæslunnar, norðurslóðasamstarfi, útbúnaði um borð og einkennisbúningum áhafnarinnar svo fátt eitt sé nefnt. Áhöfnin telur um 50 manns en um borð starfa bæði karlar og konur. „Við bjóðum Landhelgisgæslunni hjálp okkar og stuðning á meðan við siglum í íslenskri lögsögu, en við höfum m.a. tekið æfingar með íslenska skipinu Týr,“ segir hann.
„Við bjóðum Akureyringa velkomna til okkar á laugardaginn milli kl. 13-16,“ segir Sören að lokum en þá gefst bæjarbúum tækifæri að fara um borð í varðskipið og svipast um á þilfarinu.
- EMI