Í dag, föstudaginn 20. júní, tekur Sundlaug Akureyrar forskot á sæluna og fagnar Jónsmessunni. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar. Opið verður til klukkan tvö eftir miðnætti og plötusnúðurinn VélArnar heldur uppi fjörinu auk þess sem krakkarnir á TVPHONIC taka lagið og skapandi sumarstörf bregða á leik. Boðið verður upp á veitingar frá Emmesís, Kjarnafæði, Brauðgerð Axels og Vífilfelli.
„Við höfum blásið til ýmissa viðburða hér í Sundlaug Akureyrar á síðustu árum sem sumir hafa fest sig í sessi og má þar m.a. nefna kerta- og kósýkvöld,“ segir Ólafur Arnar Pálsson, aðstoðarforstöðumaður Sundlaugar Akureyrar. „Vonandi mun þetta kvöld fara vel í bæjarbúa svo við getum haldið það aftur að ári liðnu og skapað nýja hefð. Svona stór kvöld verða ekki haldin án stuðningsaðila og við eigum nokkrum velviljuðum fyrirtækjum sem koma að þessu með okkur mikið að þakka.“
- EMI