Menntaskólanum á Akureyri var slitið í gær við hátíðlega athöfn. Jón Már Héðinsson skólameistari fjallaði í ræðu sinni m.a. um nýja skólanámskrá en hún tók gildi árið 2010. Í henni er skólanum lýst sem skapandi lærdómsstofnun sem byggir nemendur undir framtíðina.
„Til þess að ná góðum árangri þarf æfingu en hún þarf að vera merkingarbær og vekja áhuga. Menntun þarf sinn tíma og atriði eins og æfing í lýðræði, siðfræði og gagnrýninni hugsun þarf einstaklingsbundinn tíma. Við setjum okkur það markmið að mennta nemendur sem sjálfstæða borgara með sterka samfélagsvitund,“ sagði Jón Már og minntist á stofnun feministafélags innan veggja skólans sem hann sagði vera birtingarmynd þeirrar samfélagslegrar ábyrgðar sem nemendur væru í auknum mæli að taka á sig.
Hann sagði einnig frá öflugu félagsstarfi sem fer fram í skólanum og tengist þá ekki síst skólafélaginu Huginn og öðrum félögum á borð við dansfélagið PríMA en einnig spurningakeppninni Gettu betur og mælsku- og rökræðukeppninni Morfís. Auk þess hefur skapast hefð fyrir því að nemendur fari í fræðsluferðir til útlanda með kennurum sínum á skólaárinu og má þá helst nefna Parísarferð frönskunema, Berlínarferð þýskunema, Lundúnaferð eðlisfræðinema og Evrópuferðir nema á ferðamálakjörsviði.
Hann minntist auk þess á kjarabaráttu kennara, fagnaði nýundirskrifuðum samningum og sagði þá vera upphafið að því að losa skólana úr fjötrum niðurskurðar.
„Í erli dagsins er mikilvægt að eiga sér griðastað í þögn, gott að nota kvöldin áður en farið er að sofa og rifja upp þrennt jákvætt sem þið hafið gert yfir daginn. Sannið til, þetta breytir miklu, ykkur þykir vænna um lífið og þá sem næstir ykkur eru,“ sagði Jón Már að lokum
Heildarumfjöllun um inntak ræðunnar má finna á vef MA.
- EMI