Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Kjarasamningar sagðir kolfallnir

$
0
0
Frá Húsavík.

Framsýn hefur áhyggjur af stöðu mála

„Fyrir liggur að kjarasamningar aðildarfélaga ASÍ sem undirritaðir voru í desember 2013 eru kolfallnir. Kjarasamningarnir byggðu á því að breið samstaða næðist í samfélaginu um stöðugleika og hóflegar launahækkanir til að halda niðri verðbólgu,“ segir í ályktun sem stjórn Framsýnar samþykkti að senda frá sér um stöðu kjarasamninga aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaðir voru í desember 2013, en stéttarfélagið á aðild að þeim.

Á sínum tíma á Framsýn að hafa varað við undirritun þeirra þar sem þeir væru ekki boðlegir verkafólki. Nú segir félagið áhyggjur sínar hafa gengið eftir þar sem aðrir hópar launafólks hafa fengið töluvert meiri launahækkanir en félagsmenn Alþýðusambands Íslands.

„Ljóst er að aðrir hópar launþega eru ekki klárir í þessa vegferð og hafa krafist og fengið margfalt þær hækkanir sem félagsmenn innan ASÍ fengu í desember. Framsýn, stéttarfélag telur að ekkert annað komi til greina en að aðildarfélög ASÍ krefjist þess sama fyrir sína umbjóðendur í næstu kjarasamningum og aðrir hópar launafólks hafa fengið í launahækkanir undanfarnar vikur og mánuði,“ segir jafnframt í ályktuninni.

Stjórn Framsýnar segir að koma þurfi í veg fyrir að félagsmenn innan ASÍ sitji eftir meðan aðrir hópar launafólks skammta sér vel á diskana í boði samtaka atvinnurekenda.

- EMI


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718