Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Á annað hundrað skiptinema til útlanda árlega

$
0
0

afsAFS eru skiptinemasamtök sem starfa í yfir 50 löndum í öllum heimsálfum. Samtökin hafa verið starfandi á Íslandi frá árinu 1957. AFS á Íslandi sendir árlega milli 100-120 skiptinema til annarra landa og tekur á móti um 20-30 nemum á hverju ári.

Skiptinemarnir eiga það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á að koma til Íslands og að vilja kynnast íslenskri menningu og fjölskyldulífi. Þær fjölskyldur sem hafa hýst nema eiga mjög góða reynslu af eftirminnilegu ári.

Alma Björg Almarsdóttir og Gísli Rúnar Víðisson, búsett á Akureyri, tóku að sér skiptinema síðastliðið haust. Hún heitir Clarissa Caregaro er frá Ítalíu og gengur í Menntaskólann á Akureyri. Alma og Gísli segjast hafa lært alveg helling og hafa kynnst hennar menningu vel og séð hversu mikill munur það er að búa á Íslandi og Ítalíu. „Við höfum kynnst yndislegri manneskju sem við eigum eftir að hafa samband við lengi og jafnvel heimsækja einhvern daginn“ sögðu þau þegar við spurðum þau hvað þeim fannst þau hafa grætt mest á reynslunni. Þegar við spurðum þau hvað þeim hafi þótt eftirminnilegast frá árinu nefndu þau jólin. „Við eigum margar góðar minningar saman, okkur fannst mjög gaman um jólin, hún hafði aldrei upplifað svona jól eins og hérna og fannst þetta mjög sérstakt og skemmtilegt. Og eins var með áramótin, hún hafði aldrei séð svona mikið af flugeldum og fannst þetta rosalega gaman.“

Þeim fannst reynslan rosalega gefandi þótt mikil ábyrgð hafi fylgt henni. Þau bera árið saman við risastórt ævintýri sem var þeim ekki alltaf svo auðvelt en þess virði þegar uppi stóð. „Við höfum lært svo mikið af Clarissu og erum mjög þakklát fyrir þetta ár sem hún er búin að vera hjá okkur. Litlu stelpurnar okkar sem eru 2 og 7 ára hafa myndað mjög góð tengsl við Clarissu og hún er bara eins og stóra systir þeirra.“

Þann 25. ágúst næstkomandi er von á um 30 erlendum nemum til ársdvalar á Íslandi. Krakkarnir eru frá ýmsum löndum, þar á meðal Japan, Danmörku, Ítalíu, Brasilíu og Bandaríkjunum og eru á aldrinum 15 til 18 ára. AFS leitar nú að fósturfjölskyldum hér á Akureyri og nærsveitum. Fósturfjölskyldur geta verið af öllum stærðum og gerðum. Þær þurfa fyrst og fremst að vera hjartahlýjar, sveigjanlegar og með áhuga á að opna heimilið fyrir skiptinema og leyfa honum að taka þátt í lífi og starfi fjölskyldunnar.

Ef áhugi kviknar hafið endilega samband skrifstofu AFS á Íslandi í síma 552-5450. Einnig er hægt að kíkja á heimasíðu samtakanna á www.afs.is.

Arnþrúður Anna Jónsdóttir


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718