Útikennslustofa við Giljaskóla á Akureyri var lögð í rúst fyrr í vikunni. Það var nemandi í skólanum sem lét vita af skemmdunum en Guðmundur Hákonarson, smíðakennari við skólann segir börnin vera mjög leið yfir verknaðinum en börnunum var sagt frá þessu við skólaslit sl. miðvikudag. Útistofan hefur ekki bara verið notuð til kennslu heldur hafa krakkarnir líka leikið sér þar utan skólatíma.
„Þetta var ansi sterklega byggt svo það hafa ekki verið nein börn að verki þarna,“ sagði Guðmundur í samtali við blaðamann. „Við kærðum þetta strax til lögreglu, en það er svosem ekki aðalatriðið hver gerði þetta heldur að þetta komi ekki fyrir aftur.“
Aðstöðuna höfðu nemendur skólans útbúið sjálf með smíðakennurum og segir Guðmundur að í haust verið farið að vinna að því að endurbyggja aðstöðuna en kennarar hafa farið og hreinsað til á svæðinu. „Við förum ekkert að gefast upp – það er nú eitt af markmiðum skólans,“ segir Guðmundur.






