Á morgun, laugardaginn 14. júní, fer fram hið árlega Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ. Hlaupið verður á 85 stöðum um land allt. Undanfarin ár hafa þátttakendur í hlaupinu verið í kringum 15 þúsund. Sjóvá hefur verið aðal styrktaraðili hlaupsins frá árinu 1993 og stutt hlaupið. Slagorð hlaupsins að þessu sinni er „Konur eru konum bestar“ en hlaupið fer nú fram í 25. sinn.
Á Akureyri verður hlaupið frá Ráðhústorgi kl. 11 og verða tvær hlaupalengdir í boði; annars vegar tveir km og hins vegar fjórir km. Upphitun byrjar kl. 10.45. Þátttökugjaldið fyrir 12 ára og yngri er 1000 krónur en 1500 krónur fyrir eldri. Gjaldið verður hægt að greiða í dag milli kl. 16-18 á Glerártorgi, í Hagkaup, Bónus og Samkaup Úrvali Hrísalundi. Innifalið í þátttökugjaldinu er kvennahlaupsbolur, sem er afhentur við greiðslu og verðlaunapeningur, sem er afhentur að loknu hlaupi.
Engin tímataka er í Kvennahlaupinu en hefð hefur skapast hjá mæðgum, systrum, frænkum og vinkonum að mæta saman í hlaupið og hvetja hver aðra áfram. Upplýsingar um tímasetningar hlaupa, lengdir og skemmtidagskrá á hverjum stað fyrir sig má finna hér.
Markmið Kvennahlaupsins er að hvetja konur til þess að hreyfa sig og stunda heilbrigt líferni. Í ár hvetur Sjóvá konur til að drífa vinkonur, mömmur, systur, frænkur eða vinnufélaga með sér til að hreyfa sig. „Þannig ræktar þú bæði sál og líkama,“ segir í fréttatilkynningu.
- EMI