Gert er ráð fyrir að aðalskrifstofa sýslumannsins á Norðurlandi eystra verði á Húsavík. Þetta kemur fram í gögnum sem birt hafa verið á vef innanríkisráðuneytisins og varða reglugerð um umdæmamörk og starfsstöðvar lögregluembætta og sýslumannsembætta. Sýsluskrifstofur verða á Akureyri og á Siglufirði og veita þær sömu þjónustu og aðalskrifstofa. Sýsluskrifstofa með takmarkaðri þjónustu verður á Dalvík.
Aðalstöð lögreglustjóra umdæmisins verður á Akureyri en lögreglustöðvar verða á Siglufirði, Dalvík, Húsavík og Þórshöfn.
Gögnin sem um ræðir eru svokölluð umræðuskjöl og eru ætluð til kynningar og samráðs en samkvæmt nýjum lögum skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, lögreglustjóra og sýslumenn. „Ráðuneytið óskar eftir góðu samráði í aðdraganda breytinganna. Rökstuddar tillögur og/eða athugasemdir óskast sendar á netfangið postur@irr.is fyrir 1. júlí næstkomandi,“ segir á vef ráðuneytisins.