Ég stóð við stofugluggann heima í Laufási seint í fyrrakvöld og fylgdist með Fnjóskánni vaxa og vatnsborðinu hækka. Fyrr um daginn hafði ég verið í sól og blíðu í Laufáshólmum að huga að æðarfuglinum sem kúrði vært á hreiðrunum sínum. Stök æðarkolla gekk stolt og ánægð rólega eftir Laufáshólmum, á eftir henni hlupu ungar, nýskriðnir úr eggi, móðirin stoppaði öðru hvoru til að kanna hvort ekki væru örugglega allir með í för, svo var haldið áfram, leiðina niður að sjó, þar sem haldið er út á haf og lífsbaráttan tekur við, sem getur jú oft og tíðum verið hörð fyrir þessa litlu unga. Áin þennan morguninn var spegilslétt, vel sást til botns og við hjónin gátum vaðið á vöðlum yfir ósinn til að komast í neðstu hólmana.
Nokkrum klukkutímum síðar var áin orðin að gruggugu, beljandi stórfljóti og engin leið að komast yfir sömu leið og við höfðum farið um morguninn nema á báti. Síðar sama dag, var hlaupið um hólmana að smala fénu sem komið var á beit, upp á öruggt tún sunnan við kirkjuna, til bjarga þeim frá ánni. Allt umhverfið breyttist á nokkrum klukkutímum. Þetta kvöld sat ég með kíkinn í stofuglugganum í hljóðri bæn um að áin tæki ekki varpið og þyrmdi fuglunum sem gefa svo mikið af sér í einfaldleika sínum og fegurð og sem hafa kennt mér svo margt og það eru sannarlega forréttindi fyrir borgarbarn eins og mig að fá að upplifa lífið í svo nánum tengslum við náttúruna og dýralífið, borgarbarnið sem hefur ekki upplifað vorkomuna nema með ísbíltúr og sundferð í Laugardalslaugina og ekki séð haustlitina almennilega fyrir rigningarsudda og sunnlensku roki. Náttúran kennir manni nefnilega svo ótalmargt og eitt er það að hún getur leikið okkur mennina grátt og er óútreiknanleg eins og síðustu mánuðir sýna og sanna.
Veturinn sem leið hefur verið okkur öllum erfiður og hefur staðið nánast linnulaust síðan í september. Fyrstu helgina í nóvember brast á stórhríð og í fyrsta sinn síðan ég flutti norður, var ég veðurteppt heima í fjóra sólahringa. Hina veturna þrjá sem ég hef verið búsett hér fyrir norðan, þá hef ég komist upp með það að fara á milli Laufáss og Akureyrar á mínum fjallabíl, Nissan Micra, reyndar á vel negldum dekkjum, en á milli komst ég án mikilla vandkvæða og hef verið þakklát fyrir það, var farin að velta því fyrir mér, hvort þessar tröllasögur af norðlenskum vetri væru bara sögur og ekki fótur fyrir þeim, þessa nóvemberhelgi kvað þó við annan tón. Ekki var hægt að moka leiðina milli Akureyrar og Grenivíkur í þrjá sólarhringa, við gengum snjóskaflana á móti stórhríðinni út í fjárhús til að gefa og hrossin stóðu í vari, við suðurenda gömlu húsanna, hvít á feldinn og hnípin. Mér datt nú ekki í hug, Reykvíkingnum, að kvarta opinberlega svona við fyrstu hindrun í veðri, en ákvað að bera mig vel og þagði þunnu hljóði. Á laugardagskvöldi, á þriðja degi í innilokun, þegar allt var að verða á þrotum í ísskápnum, kaffið búið, sem er eitur fyrir Laufæsinga, brauðið búið og allt álegg líka og ég stóð við pönnuna að elda lambahjörtu í fyrsta skipti á ævinni, því ekkert annað var til, sem ég nóta bene klúðraði, veit ekki hvort það var andrúmsloftinu, eigin gremju eða hreinni lélegri eldamennsku um að kenna en þá var stemningin orðin frekar tæp og þungi lagstur yfir heimilisfólkið.
Klukkan sjö á sunnudagsmorgni vaknaði ég við moksturstækin, Stefán Þengilsson í Höfn var mættur með öll sín tæki og ég get sagt ykkur það að það var eins og fagnaðarerindi í mínum eyrum, ég hef sjaldan heyrt eins dásamlegt hljóð og þetta. Ég dreif mig á fætur, við blasti sólríkur sunnudagur, upprisudagur og ég náði í sunnudagaskólann og í Bónus og lífið féll í samt horf á ný.
Ef þetta hefði verið eina skiptið í vetur sem fjölskyldan varð innlyksa vegna norðanáttar, stórhríðar og ófærðar, hefði þetta verið krúttleg og skemmtileg minning og allir fjölskyldumeðlimir hlegið að því þegar húsmóðirin í Laufási reyndi nýjungar í eldamennsku vegna viðvarðandi matarskorts og fólk orðið viðskotaillt vegna langvarandi inniveru. Svona samverustundir urðu þó heldur margar þegar fór að líða á veturinn og ég, sunnlendingurinn, fór að leyfa mér að kvarta undan vetri upp úr áramótum, þegar ég fór að heyra aðra gera það sama.
En að öllu gamni slepptu þá tók við vetur sem hefur verið okkur öllum þungur, langvarandi kulda- og snjóatíð með tilheyrandi tjóni hjá mörgum, nú þegar snjóa leysir og margir horfa fram á kal og mikla uppræktun túna, margir hafa þurft að takast á við heyskort og erfiðleika sem blasa við samfara þessum aðstæðum. Þetta er ekki allt, svo núna loksins þegar vorar, þá gerist það með svo miklum hvelli að ár og lækir verða eins og beljandi jökulsár í vexti og flæða yfir allt og eyra engu.
Það er því ljóst að það er margt sem blasir við sem þarf að takast á við og margt sem þarf að huga að.
Mig langar til að minnast hér sérstaklega á tvennt sem ég vil biðja ykkur að hafa í huga.
Í fyrsta lagi, þá skiptir það máli að huga að sjálfum sér og fjölskyldunni þegar að þrengir. Ég verð ítrekað vör við það að fólk er langþreytt og uppgefið eftir þennan vetur og ég sé það á mörgum sem ég mæti að þetta hefur reynt á. Við verðum að átta okkur á því að í svona langavarandi óveðurstíð, felst dulið áreiti og álag, þetta er mikill streituvaldur, vegna þess að menn hafa haft áhyggjur af ferðafærinu, af afkomu, af túnum, af dýrum osfrv.
Eftir að vetri létti, fóru margir inn í annasaman sauðburðartíma, margir hafa ekki getað sett fé út vegna snjóa sem enn hylur tún, ekki er á mörgum stöðum enn fært á fjall með fé, búin er langvarandi vökutíð og með því auka álagi sem því fylgir. Jafnframt horfa margir fram á það núna að þurfa að fara að rækta upp tún sem kostar mikla fjármuni og hjá mörgum er mikil vinna framundan í þeim efnum. Í sveitum eru margir aldir upp það að vinna og vinna mikið, menn eru ekki vanir að kvarta og kveina undan verkum, heldur er bara gengið til verka hikstalaust. Það er gott og gilt.
En hafið samt í huga að gagnvart svona aðstæðum, þá er auðvelt að ganga nærri sér. Þegar álagið er orðið mikið getur það farið að hafa áhrif á samskiptamunstur, t.d. inn á heimilum, á fjölskylduna og það nærsamfélag sem lifað er í. Það að ræða um það hvernig manni líður, það að leita sér hjálpar, ráða og hvíldar er ekki veikleikamerki, heldur styrkleikamerki og það getur oft verið upphafið að einhverju betra. Þess vegna bið ég ykkur að vera meðvituð um þessi atriði, vegna þess að oft er hjálpin nærri en mann grunar. Það að þegja, bera sinn harm í hljóði, kann að hafa verið dyggð hér á árum áður en það er ekkert sem fer eins illa með sálina en að geta ekki talað um það sem hvílir þungt á manni. Höfum í huga að vandamálin eiga það til að vaxa í einangrun og um leið og maður orðar það við aðra manneskju verður allt miklu léttara, það að eiga samtal, eiga góða að, verður oftar en ekki til þess að menn fara að eygja von og lífið verður einhvern veginn auðveldara. Þó að erfiðleikarnir hverfi kannski ekki á svipstundu, þá er það þannig að þegar við deilum með öðrum lífsbaráttunni þá verða hlutirnir á einhvern hátt léttari. Að heyja lífsbaráttuna einn er erfitt.
Þá kemur að hinu atriðinu sem mig langar að nefna en það er þetta að kirkjan lifir og hrærist í samfélagi. Kirkjan er fólk, hún er lifandi og steinarnir sem byggja hana upp eru af holdi og blóði. Hún getur aldrei lifað í einangrun af því að þá hefur hún engan til að deila sinni lífsbaráttu með, með sínum lífsboðskap, líkt og við mannfólkið þurfum á að halda, eins og ég nefndi hér að ofan. Höfum í huga að frumkirkjan var heimiliskirkja, hún byggðist upp á því að fólk skaut skjólshúsi yfir hana á heimilum sínum, fólk kom saman og borðaði saman og deildi reynslu, sinni, styrk og vonum. Það var líka aðferð Jesú til að ná til fólks, hann gekk á milli manna og átti samtal, hann fann þau sem leið illa, þau sem voru ekki gjaldgeng í samfélaginu, þau sem þurftu á hjálp að halda og hann spurði: Hvernig líður þér, hvað ert þú að ganga í gegnum, hver er þín lífssaga og þín lífsbarátta? Í dag ætla ég að dvelja hjá þér sagði hann við Sakkeus í sögunni frægu: „ Í dag ætla ég að dvelja hjá þér.“ Þannig á kirkjan að lifa, hún á að dvelja hjá ykkur, hún á að vera til staðar þar sem samfélagið er statt hverju sinni, þar sem fólkið er statt hverju sinni, hvort sem það eru þrengingartímar eða gleðitímar. Þess vegna er það svo gott að við komum hér saman í kvöld, í kirkjunni til að deila saman gleði og sorg, til að ræða um það sem brennur á okkur og til að leita ráða og aðstoðar ef þörf er á slíku og til að gleðjast saman yfir því sem vekur okkur gleði. Af því af samfélaginu og af samverunni sprettur von. Þannig tökumst við á við erfiðleikana, saman, einn dag í einu með þá trú í brjósti að það komi betri tíð. Það er einn helsti og mesti styrkleiki sem ég hef orðið vör við eftir að ég flutti norður, en það er samhjálpin í samfélaginu, í sveitasamfélaginu er falinn mikill styrkur og þegar eitthvað bjátar á leggjast allir á eitt og allir eru til í að leggja eitthvað til, það hef ég séð og reynt gagnvart erfileikum og sorgum hér í sveitum.
Þar sem ég stóð við gluggann í fyrrakvöld heima í Laufási með kíkinn í hljóðri bæn um að Guð þyrmdi lífinu niður í Laufáshólmum, þegar Fnjóskáin streymdi niður árfarveginn og enginn mannlegur máttur hefði haft tök á að stöðva för hennar fór ég að blaða í ljóðabók Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og mig langar til að enda þessa hugvekju á lokaversinu úr einum fallegasta sálmi sem hann hefur samið og er mín huggun og styrkur þegar lífið færir mér stór og þung verkefni í skaut en það er sálmurinn „Á föstudaginn langa“ . Hann er reyndar tengdur dymbilvikunni órjúfanlegum böndum, en ég er á því að við megum aldrei festa um of fallegan kveðskap og sálma við einn ákveðinn tíma eða annan, heldur eigum við að nota svona huggunarrík orð við sem flest tækifæri, megi þau blása okkur byr í brjóst og megi þessi orð vera bæn okkar allra nú þegar vor leyst vetur af hólmi og um leið bæn um bjartari og betri tíð. Góður Guð vaki yfir ykkur öllum og styði ykkur og styrki í þeim verkefnum sem framundan eru.
Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.
Sunna Dóra Möller
Höfundur er settur sóknarprestur í Möðruvallarklaustursprestakalli og æskulýðsprestur í Akureyrarkirkju.
Hugvekja þessi var flutt á samstöðufundi bænda í Hörgársveit og Öxnadal í Möðruvallaklausturskirkju fimmtudagskvöldið 6.6.2013.