Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Óraunhæf glansmynd?

$
0
0
Ragnar Sverrisson,

Ragnar Sverrisson,

Í grein í blaðinu telur Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, að fyrirliggjandi tillögur að enduruppbyggingu miðbæjarins sé glansmynd sem gengur ekki upp. Hann hefur áhyggjur af því að allt fari í baklás í umferðinni í miðbænum ef farið verður eftir tillögunum um breytingar á Glerárgötu og hætta geti skapast.

Í því sambandi bendir hann á að Vegagerðin hafi „það erfiða hlutverk að reyna að samræma almannahagsmuni sérhagsmunum hvers sveitarfélags“. Þetta er hárrétt hjá honum og þess vegna voru umræddar tillögur um nýjan miðbæ bornar undir þessa ágætu stofnun eins og vera ber. Ef dæma má af grein Friðleifs Inga, þar sem hann teflir fram mörgum mælingum, tölum, stöðlum og viðmiðunum, gæti saklaus lesandi dregið þá ályktun að Vegagerðin hafi fundið það út að þetta nýja miðbæjarskipulag væri gjörsamlega ófullnægjandi með tilliti til almannahagsmuna. Svo er þó alls ekki. Með fullri virðingu fyrir skoðunum hans og framsetningu í máli þessu er staðreyndin samt sú að Vegagerðin fór yfir tillögu að breytingu á Glerárgötunni á kaflanum milli Strandgötu og Kaupvangsstrætis árið 2010, þegar þær hugmyndir voru auglýstar, og samþykkti þær fyrir sitt leyti. Nákvæmlega sama útfærsla var lögð fram á ný í auglýstri tillögu nema að þessi 300 metra kafli er lengdur um uþb 200 metra norður að Grænugötu. Það mun tæpast breyta afstöðu Vegagerðarinnar þegar hún gefur frá sér formlega umsögn fyrir lok auglýsts frests sem gefinn hefur verið til að tjá endanlega afstöðu til tillagnanna í heild sinni eins og skipulagslög kveða á um.

Ekki ætla ég að skiptast á talnarunum við Friðleif Inga enda treysti ég niðurstöðum í fylgigögnum með tillögunni sem voru unnar fyrir Vegagerðina af færustu sérfræðingum í umferðarskipulagi og vegagerð með tilliti til almannahagsmuna. Ég vil samt minna á að við undirbúning og gerð tillagnanna var almenn samstaða um að hægja umferðina þegar bílar – einkum stórir – fara í gegnum miðbæinn og áfram sína leið. Vilji íbúa stendur til þess að miðbærinn verði skjólsæll, gott aðgengi verði milli hans og sjávar og hann almennt vel skipulagður fyrir gangandi fólk.

Ef breiðgata verður sett eftir endilöngum miðbænum, þar sem stórir og smáir bílar geta blússað í gegn án þess að hægja á sér, verður þessi draumsýn að engu og gæti þess vegna breyst í martröð. Bílar eru góðir til síns brúks en best að hafa það á hreinu að þeir eru samt ekki leiddir til öndvegis í þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Þar er fólk sett í forgang og bílar verða að hægja á sér eða hverfa ofan í bílageymslur ellegar bílahús eins og nú er víðast gert meðal annarra þjóða. Engu að síður er rétt að huga vel að því hvernig best er að haga umferð á slíku svæði og varast að ekki skapist umferðarteppur eða hættur sem hægt er að sneiða hjá. Góð umræða um allt sem snertir umferðaröryggi er því nauðsynleg. Þess vegna er framlag Friðleifs Inga virðingarvert enda þótt Vegagerðin hafi komist að annarri niðurstöðu en hann og deili ekki með honum sömu áhyggjum.

Að þessu metnu er ég ósammála því að fyrirliggjandi nýskipan miðbæjarins sé glansmynd og þar að auki hættuleg; þvert á móti tel ég hana góða lausn sem uppfyllir óskir bæjarbúa um vistvænan og aðlaðandi miðbæ þar sem gott mannlíf þrífst í friðsælu og öruggu umhverfi.
Ragnar Sverrisson
Höfundur er áheyrnarfulltrúi í skipulagsnefnd Akureyarbæjar


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718