Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Jákvæð afkoma auðveldar starf Byggðastofnunar

$
0
0
Þóroddur Bjarnason

Þóroddur Bjarnason

„Það er ekki markmið stofnunarinnar að skila eiganda sínum hagnaði heldur að styrkja atvinnulíf um allt land. Þessi jákvæða niðurstaða gerir stofnuninni kleift að sinna því hlutverki enn betur á yfirstandandi ári,“ segir Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar.

Hagnaður af starfsemi Byggða­stofnunar var 189 milljónir króna í fyrra. Þykir slík útkoma sæta tíðindum en stofnunin hefur oft verið milli tanna fólks vegna ákvarðana sem ekki hafa þótt skila árangri. Þóroddur segir að lLánastarfsemi Byggðastofnunar sé ætlað að styrkja atvinnulíf um land allt með því að tryggja fyrirtækjum á viðkvæmum svæðum lánsfé á sambærilegum kjörum og bankarnir bjóða á höfuðborgarsvæðinu. Við lánveitingar og úrvinnslu mála taki stofnunin jafnframt tillit til hagsmuna veikburða samfélaga. „Lögum samkvæmt á stofnunin engu að síður að varðveita eigið fé sem er kannski ekki fyllilega raunhæft markmið þegar um slíkan stuðning við veikburða atvinnustarfsemi er að ræða. Byggðastofnun varð fyrir miklum búsifjum í bankahruninu þótt tap hennar væri reyndar hlutfallslega miklu mun minna en bankanna. Á árinu 2013 voru síðustu stóru afskriftirnar vegna hrunsins afgreiddar en jafnframt vann stofnunin mál fyrir Hæstarétti þar sem bankainnstæða stofnunarinnar hjá SPRON var viðurkennd sem forgangskrafa. Heildarniðurstaða ársins er hagnaður um 188,9 milljónir og hækkun eiginfjárhlutfalls í 16%, en lögum samkvæmt skal það að lágmarki vera 8 prósent,“ segir Þóroddur.

Hreinar vaxtatekjur á árinu 2013 voru 437,4 milljónir króna eða 43,8% af vaxtatekjum, samanborið við 593,8 milljónir (47,9% af vaxtatekjum) hreinar vaxtatekjur á árinu 2012. Laun og annar rekstrarkostnaður nam 373,6 milljónum króna samanborið við 312,7 milljónir árið 2012. Framlög í afskriftarreikning útlána, og matsbreytingar hlutafjár voru 51,0 milljónir króna en voru 444,9 milljónir 2012. Eignir námu 14.872 milljónum króna og hafa lækkað um 1.866 milljónir frá árinu 2012. Þar af voru útlán og fullnustueignir 11.570 milljónir. Skuldir námu 12.458 milljónum króna og lækkuðu um 2.091 milljón á árinu 2012. Veittar ábyrgðir utan efnahagsreiknings námu 22,6 milljónum króna.

Stjórn Byggðastofnunar er skipuð af ráðherra byggðamála til eins árs í senn. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun tilkynna um skipun stjórnar 2014-15 á ársfundi Byggðastofnunar á Sauðárkróki 29. apríl næstkomandi.
-BÞ


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718