Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Ógeðslega töff að vera snoðuð

$
0
0
Hildur Eir Bolladóttir. Mynd: Guðrún Hrönn

Hildur Eir Bolladóttir. Mynd: Guðrún Hrönn

Ég snoðaði mig fyrst þegar ég var rúmlega tvítug, raunar viku eftir að ég gekk í heilagt hjónaband í Akureyrarkirkju en það var 18.júní árið 2000. Suðurlandsskjálftinn reið yfir daginn fyrir athöfnina svo ég áleit að það væru nógu miklar hamfarir að ég færi nú ekki líka að ganga inn kirkjugólfið hárlaus í hvítum kjól og „brúðarbuffaló“ ( háhælaðir hvítir skór með alltof þykkum botni). Þegar ég skoða brúðkaupsmyndirnar nú fjórtán árum síðar dreg ég þá ákvörðun stórlega í efa, það hefði verið miklu betra að ég hefði verið krúnurökuð á stóra deginum í stað þess að vinna mín heit með einhverja fáránlega kórónu á hausnum eins ég hefði hreinlega komið beint úr gæsapartýinu í kirkjuna. En þetta var víst tískan þá.

Nema hvað að viku síðar var ég búin að snoða mig og maðurinn minn var bara sáttur, hann er enn giftur mér í dag og sér ekki fyrir endann á því þó hvatvísi mín ruggi vissulega hjónabandsbátnum svonum endrum og eins.

Mér er það alltaf mjög minnisstætt að þegar ég var svona hárlaus á þessum tíma átti ég erindi inn í voðalega fína snyrtivöruverslun í Reykjavík. Þar sem ég stend þar og er að velta fyrir mér áferð og lit á andlitsfarða vindur eldri kona sem starfaði í versluninni sér að mér og segir með umvöndunartón og eiginlega hálfgerðum þótta „ hvernig datt þér í hug að gera þetta, veistu hvað það er erfitt að safna úr svona klippingu“?

Hidur Eir Bolladóttir skartar í dag „kiwi“-klippingu

Hidur Eir Bolladóttir skartar í dag „kiwi“-klippingu

Nú er ég ekki í eðli mínu skapofsamanneskja og heldur ekki mjög viðkvæm fyrir persónu minni, en engu að síður gerðist það að ég snöggreiddist, sagði ekki orð heldur strunsaði út úr búðinni án þess að eyða þar krónu sem telst nú nokkuð góður mælikvarði á að mér sé misboðið. Stundum þegar maður verður reiður langar mann að segja eitthvað sem maður veit að mun gjörsamlega slá öll vopn úr höndum viðmælandans. Ef sú tilfinning sækir að þér í reiðinni skaltu velta því fyrir þér hvort það muni ekki slá fleiri vopn úr þínum eigin höndum. Ég lenti nefnilega NÆSTUM  í þeirri gryfju þarna, ég hugsaði í tíu sekúndur hvort ég ætti að segja við konuna að mér þætti leitt að stuða hana svona en ég hefði bara verið að klára lyfjameðferð og hárleysið væri hluti af þessum bannsettu aukaverkunum.

Ég hefði ekki stækkað við slíka ósvífni en hins vegar hefði ég kannski átt að benda henni á að ég hefði hugsanlega getað verið að koma úr slíkri meðferð og hún skyldi framvegis sýna aðgát í nærveru sálar. Ég var bara svo ung að ég kunni ekki að bregðast við af yfirvegun. En þetta er umhugsunarvert.

Nú sextán árum síðar er ég aftur búin að snoða mig. Og ef til vill er hluti af þeirri ákvörðun sú reynsla sem ég varð fyrir í snyrtivöruversluninni forðum. Maður á alltaf að reyna draga ályktanir af mistökum annarra og auðvitað eigin líka.

Í dag tileinka ég gjörninginn öllum þeim sem eru að glíma við krabbamein, öllum þeim sem hafa látist úr krabbameini og öllum þeim sem lifa. Og auðvitað hugsa ég sérstaklega til vina minna og vandamanna sem hafa fengið þennan óboðna gest í heimsókn.

En svo finnst mér líka bara ógeðslega töff að vera snoðuð. Kannski verð ég bara svona það sem eftir er. Hver veit.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718