Athyglisverð frétt birtist í blaðinu Akureyri vikublaði 20.feb sl. Og þeim fjölgar. Blaðið er að sækja sig.
Veiðifélag Mývatns skorar á sveitarstjórn og aðra að koma í veg fyrir frekari framkvæmdir við jarðvarmavirkjanir í nágreni Mývatns.
Tillagan var borin upp af formanni félagsins. Áskorunin er birt í heild í blaðinu og þar með rökstuðningur fyrir því að þetta sé brýnt. Helsti rökstuðningur var: Svæðið er á rauðum lista umhverfisyfirvalda (ekki nefnt hverra) vegna áforma um Bjarnarflagsvirkjun, mengandi frárennsli frá mannabyggð og hnignunar kúluslkíts. Helstu áhyggjur vegna Bjarnarflagsvirkjunar eru minna hitastreymi til vatnsins vegna kólnunar og/eða minna rennslis og eiturefnamengun frá borholuvökva.
Ég varð hissa að að veiðifélagsmenn, vildu leggja þetta til málanna.
Í því sambandi langar mig að skjóta nokkrum athugasemdum eða hugleiðingum inn í umræðuna.
Fyrir það fyrsta: Í Kröflueldum hækkaði hiti á grunnvatni sem rennur í Ytriflóa. Hiti vatns í Grjótagjá, sem er sæmilegur mælikvarði, fór úr um 40°C í um 65°C. Síðan hefur hann lækkað hægt og bítandi. Því finnst mér skjóta skökku við að áhyggjur stafi af lækkandi hita grunnvatns þar sem hann nálgast óðum það sem hann var á árum áður.
Í öðru lagi; Borholuvökvi frá Bjarnnarflagi, hvort sem hann er eiturefnamengaður eða ekki, hefur verið losaður á yfirborði í Barnarflagi í meira en hálfa öld og við Kröfluvirkjun nokkru skemur. Ég hef ekki rekist á neinar mælingar sem hafa gefið vísbendingu um að hann spilli lífríki vatnsins. Ef þær eru til, vildi ég gjarna fá ábendingar þar um.
Í þriðja lagi: Borholuvökvi úr Bjarnarflagi er nú notaður í Jarðböðin í Mývatnssveit sem tugþúsundir manna baða sig í ár hvert. Fullyrðing þeirra veiðifélagsmanna að hann sé eirurefnamengaður finnst mér nokkuð brött og hjálpar Jaðböðunum varla í markaðssetningu, nema enginn taki mark á henni.
Í fjórða lagi; Gert er ráð fyrir samkvæmt umhverfismati Bjarnarflagsvirkjunar að borholuvökvi sem frá henni stafar og Jarðböðin þurfa ekki að nota, verði sendur aftur niður í jörð a.m.k. 1.000 metra niður fyrir sjávarmál.
Í fimmta lagi: Ef taka ætti tillit til áskorunar formanns veiðifélagsins um að beita varúðarreglunni, þ.e. að náttúran njóti vafans, sýnist mér að hann snúist helst um frárennsli frá fólki í sveitinni, íbúum landbúnaði og ferðafólki. Með fjölgun ferðafólks eru líkur til að frárennslið aukist. Veit raunar ekki til að næringarefna- eða eiturefnamengunar vegna frárennslis frá landbúnaði eða byggð hafi til þessa orðið vart í Mývatni.
Hvaðeina má draga í efa. Í þessu tilfelli sýnist mér efinn helst beinast að afleiðingum fjölgunar ferðafólks. Verði tekið undir óskir þeirra 14 veiðifélagsmanna, að náttúran fái að njóta vafans, liggur beinast við að takmarka eða banna móttöku ferðamanna í Mývatnssveit.
Í frétt blaðsins kom fram að eftir miklar umræður hafi tillagan verið naumlega felld með 18 atkvæðum gegn 14, þ.e. 14 af 32 fundarmönnum samþykktu tillögu formanns. Hvort það er naumt læt ég öðrum eftir að dæma.
Að lokum: Í þessari athyglisverðu tillögu formanns veiðifélagsins kemur fram að “ Bleikjuveiði hafi löngum verið stórfelld hlunnindi vatnsbænda í Mývatnssveit, sem séu nú að engu orðin”.
Þegar illa veiddist á árum áður var Kísiliðjunni gjarnan kennt um. Hún er löngu horfin. Nú er risinn nýr skotspónn, jarðvarmavirkjun.
Hverju voru veiðileysis- og átuleysisár að kenna fyrir tilkomu Kísiliðju og jarðvarmavirkjanna í nágrenni Mývatns?
Dettur engum í hug að bleikja í Mývatni hafi verið ofveidd?
Sigurður Rúnar Ragnarsson
(Aths. ritstjóra: Í greininni að ofan segir að tillagan á fundinum hafi komið fram frá formanni Veiðifélags Mývatns. Hið rétta er að tillagan kom fram frá fyrrverandi formanni Veiðifélags Mývatns, Braga Finnbogasyni. Bragi situr samkvæmt upplýsingum blaðsins ekki í stjórn.)
-BÞ