Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Hvatning til akureyrskra kvenna

$
0
0
Andrea Hjálmsdóttir

Andrea Hjálmsdóttir

Mánudaginn 2. desember var opinn íbúafundur haldinn í Hofi þar sem kynntar voru tillögur að nýju skipulagi fyrir miðbæ Akureyrar. Tillögurnar eru að mínu mati mjög fínar og hefur hópurinn sem unnið hefur að þeim lagt sig fram við að upplýsa bæjarbúa um framvindu verkefnisins og gefa þeim þar með tækifæri til þess, hvort heldur sem er, að lýsa yfir ánægju sinni með skipulagið eða koma athugasemdum á framfæri á meðan á vinnunni stendur. Okkur bæjarfulltrúum til mikillar ánægju var fundurinn fjölmennur enda um stórt mál að ræða til langrar framtíðar. Það er mjög mikilvægt að vel sé að skipulagsvinnu staðið því mikið er í húfi sem varðar lífsgæði okkar allra í nútíð og framtíð. Það sem olli mér vonbrigðum á annars vel sóttum fundi var fjarvera akureyrskra kvenna.

Skipulagsmál eru alls ekki síður kvennamál en karlamál. Nú veit ég vel að í gegnum tíðina hefur aðkomakarla að opinberum málum verið mun meiri en aðkoma kvenna en það er að breytast. Í samfélagi þar sem helmingur íbúa er konur, atvinnuþáttaka kvenna er nálægt því að vera á pari við karla og þátttaka kvenna á flestum sviðum hins opinbera lífs hefur aukist jafnt og þétt þá getum við konur ekki látið hjá líða að hafa áhrif á stórmál í bæjarfélaginu – líkt og skipulagsmál eru. Það er því gríðarlega mikilvægt að sjónarmið kvenna komi fram á slíkum fundum eins og sjónarmið karla. Viljum við hafa áhrif þurfum við að koma og hafa áhrif! Það má auðvitað alltaf deila um heppilega tímasetningu funda. Allar rannsóknir sýna að umsjón með barnauppeldi og ábyrgð á heimilisstörfum er frekar á herðum kvenna og það hefur auðvitað áhrif á opinbera þátttöku þeirra. Svo virðist sem fáir tímar henti konum sérstaklega vel til fundarþátttöku því þetta er síður en svo eini fundurinn varðandi „hörðu“ málin í bæjarfélaginu þar sem kynjaskiptingin er jafn hrópandi ójöfn og hún var sl. mánudag. Það er okkur öllum kappsmál að breyta þessari verkaskiptingu.

Því vil ég eindregið hvetja konur á Akureyri til þess að mæta á opna fundi um allt mögulegt sem viðkemur konum, körlum og börnum í samfélaginu okkar. Ég get ekki haft nógu mörg orð um það hversu mikilvægt það er að konur og karlar hafi jafna aðkomu að samfélagslegum málum, hvort er skipulagsmálum, skólamálum, framkvæmdum eða umönnun. Það er lang farsælast fyrir okkur öll að aðkoman sé jöfn, þannig byggjum við upp eftirsóknarvert og lífvænlegt samfélag fyrir okkur öll í nútíð og framtíð.

Andrea Hjálmsdóttir
Höfundur er bæjarfulltrúiVG


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718