Minnstu mátti muna að illa færi þegar Kaldbakur missti vélarafl í Eyjafirði á mánudagskvöld. Úlfar Hauksson vélstjóri lýsir á bloggsíðu sinni að aðeins hafi munað einni báru að skipið strandaði. Mikill viðbúnaður varð.
Að sögn Úlfars var Kaldbakur að bakka frá bryggju í norðanbálinu þegar svo óheppilega vildi til að bilun varð í sjálfvirkri stjórnun véla og viðvörunarkerfi sem varð til þess að önnur aðalvél skipsins drap á sér og hin kúplaðist frá skrúfu. Skipið varð stjórnlaust og rak hratt fyrir vindi í átt að grjótvarnargarði við höfnina. Með snarræði tókst að kúpla vélinni sem var í gangi við drifskrúfu skipsins með hægri fæti vélstjóra. „Þannig tókst skipstjórnarmönnum að bakka út úr brimrótinu og forða skipinu frá strandi og koma því að bryggju.“
Engum varð meint af og á þriðjudagsmorgun sigldi Kaldbakur undir fullu vélarafli á móti úthafsöldunni „En viðbúnaðurinn við höfnina var í fullu samræmi við tilefnið. Það hefði geta farið illa og munaði mjóu – svona sirka einni báru,“ segir Úlfar.
-BÞ