Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Aukin veikindi og fjarvistir hjá FSA valda kostnaði

$
0
0
Vignir Sveinsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs FSA

Vignir Sveinsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs FSA. Mynd af vef FSA.

Nærri lætur að eitt af hverjum átta störfum á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafi tapast í niðurskurði síðustu ára. Þetta kemur fram í pistli Vignis Sveinssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs á vef sjúkrahússins.

Vignir segir afleiðingarnar af fækkun starfsmanna vera aukið álag á þá starfsmenn sem eftir eru. „Starfsmenn eru orðnir vegmóðir af langri og erfiðri göngu frá því að efnahagsþrengingarnar skullu yfir samfélagið fyrir 5 árum,“ segir Vignir og bendir á að aukin veikindi og fjarvistir leiði til fjölgunar útkalla og meiri yfirvinnu sem ekki var gert ráð fyrir í fjárheimildum.

Átak hefur verið gert til að fækka útköllum og spara önnur útgjöld eftir því sem mögulegt er og segir Vignir að tekist hafi að snúa þróuninni til betri vegar og halli fyrstu 7 mánuðina sé aðeins 91,5 milljón en fyrr á árinu stefndi í mun meiri halla. Einnig muni um að tekjur sjúkrahússins hafi verið meiri en gert var ráð fyrir en það skýrist aðallega af komugjöldum sjúklinga og daggjöldum útlendinga.

„Senn líta frumvörp til fjárlaga 2014 og fjáraukalaga 2013 dagsins ljós. Ekki er ljóst á þessari stundu hvaða boðskap þau innihalda en við höfum þær væntingar að Sjúkrahúsið á Akureyri sitji við sama borð og aðrir þegar kemur að óhjákvæmilegum leiðréttingum á fjárframlögum til heilbrigðisstofnana,“ segir Vignir að lokum og bætir því við að hann sé bjartsýnn á framhaldið.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718