Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Óveðurspáin stenst í meginatriðum – stefnumót veðurkerfa

$
0
0
Skýringarmynd af bloggi Trausta Jónssonar

Skýringarmynd af bloggi Trausta Jónssonar.

Margir velta því nú fyrir sér hversu mikið verði úr óveðurspá sem Veðurstofa Íslands sendi frá sér varðandi helgina. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir spána standast í meginatriðum þó enn sé ekki ólíklegt að einhverjar breytingar verði á henni. „Strengurinn hefur færst til vesturs og því verður veðrið eitthvað seinna á ferðinni á Norðurlandi en spáð var og eins hefur örlítið hlýnað,“ segir Elín.

Trausti Jónsson veðurfræðingur heldur úti bloggi þar sem hann skrifar ýmsan fróðleik sem tengist veðri. Í gærkvöldi setti hann inn afar fróðlega færslu sem lýsir því hvað gerist þegar óveður á borð við það sem spáð er um helgina myndast en til þess að það gerist þurfa nokkur veðurkerfi að koma saman. Nú um helgina eru það fimm, jafnvel sex, veðurkerfi sem eiga það sem Trausti kallar „stefnumót“.

Um er að ræða eina lægð sem komin er  langt suðvestan úr hafi og inniheldur mikið af röku lofti, þrungnu dulvarma sem bíður eftir því að losna og belgja út efri hluta veðrahvolfsins. Önnur lægð hefur orðið til við jaðar mikillar kuldaframrásar og kemur suð-vestan frá að landinu. „Þetta eru aðalkuldaskil stefnumótsins. Þar sem þau ryðjast fram lyftist loft við skilin – en lág veðrahvörf fylgja í kjölfarið. Þegar þessum lágu veðrahvörfum „slær saman“ við rakalosun lægðar eitt – verður til aukaþrýstifall og stefnumótalægðin dýpkar mjög mikið á stuttum tíma,“ segir Trausti á blogginu.

„Langalgengast er að lægðir eins og þessar tvær farist á mis á hraðferð sinni til norðausturs. Í þessu tilviki á lægð þrjú að koma í veg fyrir það. Hún er hringrásarmest þessara lægða, margar heilar jafnþrýstilínur eru í kringum lægðarmiðjuna. Hringrásin nær að grípa minni lægðirnar og síðan halar hún þær inn í sameiginlegt hringrásarból, jafnframt því að hreyfast til suðausturs. Gerist þetta á samtímis stefnumóti hinna lægðanna bætir enn í kraft stefnumótalægðarinnar.“

Trausti segir að stundum nái stærri lægðirnar í þessari stöðu ekki að sameinast þeim fyrri og ef það gerist nú verði ekki mikið úr illviðrinu.

Þetta voru fyrstu þrjú kerfin af sex sem hugsanlega koma saman um helgina. Númer fjögur er kalda loftið við Grænlandsstrendur. „Númer fimm er hlýr háloftahryggur sem fylgir í kjölfar lægðar tvö. Hryggurinn þrengir að lægðakerfinu og ýtir því til austurs. Ef hann mætir ekki verður veðrið norðaustlægara og trúlega vægara en ella.

Veðrakerfi númer sex virðist ætla að missa af stefnumótinu samkvæmt Trausta en það er einskonar fingur sem nú virðist stefna beint austur til Bretlandseyja. „Í gær (þriðjudagskvöld) virtist hins vegar sem fingurinn næði að læsast í bakhlutann á lægð tvö og dýpka hana umtalsvert. Ólíklegt er að spár fari að hringla með þetta enn á ný – en það er svosem aldrei að vita. Örlagastund stefnumóts fingurs og lægðar tvö er klukkan 6 á föstudagsmorgni. Nái hann taki dýpkar lægðin sennilega um 6 til 8 hPa – og munar um minna,“ segir Trausti að lokum.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718