Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Synda yfir Ermasund og Eyjafjörð

$
0
0
Sækýrnar á góðum degi

Sækýrnar á góðum degi

Sex konur, þar af þrjár frá Akureyri stefna á það nú í byrjun júní að synda yfir Ermasundið. Þetta eru þær Ragnheiður og Kristbjörg Valgarðsdætur, Birna Hrönn Sigurjónsdóttir, Anna Guðrún Jónsdóttir, Sigrún Geirsdóttir og Kristín Helgadóttir. Blaðamaður Akureyrar vikublaðs spjallaði við Ragnheiði til að forvitnast um Sækýrnar, eins og þær kalla sig.

Ragnheiður, Kristbjörg og Birna eru fæddar og upphaldar á Akureyri og hafa alveg frá barnæsku tengst sjónum og sundi. „Við Kidda ólumst upp á Spítalaveginum og vorum alltaf niðri við Höpfnersbryggju og að þvælast við sjóinn en ég og Birna æfðum sund með Óðni í mörg ár. Birna æfði á tímabili með landsliðinu en ég varð nokkrum sinnum Akureyrarmeistari,“ segir Ragnheiður og segir þær mikið hafa synt saman síðan og sl. fjögur ár hafi þær synt í sjónum allan ársins hring.

„Við höfum alltaf verið að finna stærri og stærri áskoranir. Við syntum yfir Eyjafjörðinn fyrir nokkrum árum, það var mjög skemmtilegt, sumarið 2010 syntum við saman út í Hrísey, árið 2011 syntum við Viðeyjarsund frá Viðey og inn í Reykjavíkurhöfn og árið 2012 syntum við saman með fjórðu konunni boðsund upp á Akranes. Þá kom upp hugmyndin af Ermarsundinu. Það er ekki sama upplifunin að synda á ólíkum stöðum, hver staður hefur sinn sjarma, það er t.d. mismunandi líf í sjónum, botninn er ólíkur og fleira í þá áttina. Sjórinn í Eyjafirðingum var sérstakur á bragðið, það er minna salt í honum vegna Eyjafjarðarárinnar.

Sækýrnar hittast tvisvar til þrisvar í viku til að synda í sjónum. „Þetta er allra meina bót og æðislegt fyrir kroppinn,“ segir Ragheiður. „Þetta er búst fyrir líkamann og maður losnar við alla vöðvabólgu því þegar verið er að synda dofnar maður upp en á eftir fer allt kerfið og blóðflæðið af stað og veldur mikilli vellíðan,“ segir Ragnheiður og segir sjósund vegar afskaplega frelsandi – þegar búið sé að komast yfir kuldann. „Þetta er bara eins og fyrir hlaupara sem er búinn að hlaupa alltaf inni í íþróttahúsi og fer síðan að hlaupa úti,“ bætir hún við.

Ermasundið til styrktar MS félaginu
„Við leggjum af stað til Írlands í lok júní. Við eigum pantaðan bát og skipstjóra í Dover frá 22. júní og höfum þá viku til að bíða eftir nægilega góðu veðri til að leggja af stað. Um leið og veður gefst þá leggjum við af stað, hvort sem er að nóttu eða degi, þannig að við gætum vel þurft að synda í myrkri og höfum aðeins verið að æfa okkur í því hérna í Fossvoginum“.

Sækýrnar eru þó ekki aðeins að leggja í Ermasundið fyrir sína eigin ánægju heldur ætla þær að styrkja MS félagið með sundinu og safna nú áheitum og styrkjum fyrir málefnið. Hægt er að leggja beint inn á reikning Sækúnna 515-14-407491 kt: 551012-0420 eða hafa samband við þær með tölvupósti á 6manatees@gmail.com

„Þetta er engin keppni fyrir okkur heldur viljum við bara njóta þess að gera þetta. Við viljum líka vekja athygli á sjósundinu og kannski að sýna fram á að það liggi jafnvel betur fyrir konum en körlum. Það hefur lengi verið tengt við karlmennsku og hetjuskap en við konur virðumst þola kuldann betur,“ segir Ragnheiður og hlær.

„Við skorum á allar konur að prófa sjósundið. Þegar maður er kominn yfir fyrsta kaflann þá er þetta æðislegt og sumarið er alveg frábær tími til að prufa þetta,“ segir Ragnheiður að lokum og gleðst yfir því að nú hafi sjósundfélag verið stofnað á Akureyri en það er hópur fólks sem hittist við líkamsræktarstöðina Átak og fer í sjóinn og svo í heita pottinn á eftir. Nánari upplýsingar um það hér á Facebooksíðu hópsins

„Nafnið Sækýrnar er fengið út frá dýrinu sem okkur finnst líkjast okkur pínulítið,“ sagði Ragnheiður, hér má sjá myndir af þessum fallegu dýrum.

Texti: Sóley Björk Stefánsdóttir

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718