Ragnar Hólm er mörgum kunnur. Í röskan áratug hefur hann séð um kynningar- og upplýsingamál hjá Akureyrarbæ og ann sinni heimabyggð ákaflega. Í viðtali við Akureyri vikublað ræðir Ragnar listina, söknuðinn, heimspekina, vinnuna, þvottaklemmur og margt fleira.
Þú ert fæddur á Akureyri, ekki satt, Ragnar, af hvaða fólki ertu kominn og hvað markaði uppeldi þitt helst?
Jú, ég er fæddur og uppalinn á Akureyri en flutti suður 18 ára og kom aftur heim 20 árum síðar. Pabbi minn, Ragnar Ásgeir Ragnarsson, er ættaður að vestan en margir muna líklega eftir honum sem hótelstjóra á Hótel KEA. Mamma mín, Sigurlaug Helgadóttir, er héðan, dóttir Helga Pálssonar og Kristínar Pétursdóttur sem bjuggu lengi í Spítalavegi 8. Mamma er hjúkrunarkona og vann lengi sem slík á FSA og Hlíð. Auðvitað var það fyrst og fremst þetta góða fólk sem markaði uppeldi mitt og einnig systir hennar Stínu ömmu, Sigurlaug Pétursdóttir eða Lauga og maðurinn hennar Stefán Hólm Kristjánsson en Hólm nafnið hef ég frá honum. Þau bjuggu lengst af í Aðalstræti 16 þar sem ég sat dagana langa við suðurgluggann í kjöltunni á Holla gamla, sem þá var orðinn illa farinn af erfiðisvinnu, og við töldum skógarþresti og bíla. Annað sem mótaði mig ákaflega mikið var að ég var fjögur sumur í sveit hjá hjónunum Gunnari og Helgu í Flatatungu í Skagafirði þar sem ég naut elsku en lærði líka að vinna. Þá voru Oddur og Sigríður, foreldrar Gunnars, ennþá á lífi og Sigríður var mér sérstaklega kær. Margt sem við brölluðum saman í gamla torfkofanum hennar kemur mér enn og aftur upp í hugann. Hún átti hund sem hét Lappi og freistaðist til að bíta alla nema okkur tvö. Kannski var ég þá sjö ára.
Ástin á frelsinu og óttinn við það
Þú lærðir heimspeki og heillaðist af Sartre og tilvistarstefnunni. Hvers vegna?
Ég lærði fyrst og fremst félagsfræði eða ætlaði að gera það og hafði heimspeki sem aukagrein. Mér fannst hins vegar að ofuráhersla væri lögð á tölfræði og úrvinnslu kannanna innan félagsfræðinnar og það heillaði mig engan veginn. Mér fannst það engu máli skipta hvort einn hópur manna færi oftar á klósettið eða borðaði meira hangiket en annar hópur manna. Því færði ég mig smám saman og eftir því sem leyfilegt var yfir í allan kenningagrautinn og skrifaði BA-ritgerðina mína á endanum undir handleiðslu Vilhjálms Árnasonar sem þá var lektor í heimspeki við HÍ. Og jú, ég heillaðist af Kierkegaard, Nietzsche, Camus, de Beauvoir og síðast en ekki síst Sartre. Ritgerðin mín fjallaði um kenningar hans um samfélagsátök, stofnanir og hópamyndanir. Það er erfitt að segja hvers vegna ég heillaðist af Sartre og hinum tilvistarspekingunum en hlutskipti mannsins, hvernig okkur er varpað inn í veröldina án sýnilegs tilgangs, ást okkar á frelsinu og óttinn við það, og ýmislegt af þeim toga hefur alltaf valdið mér, eins og vonandi flestum öðrum, talsverðum heilabrotum.
Og hefurðu þá komist að því hver tilgangur lífsins er?
Nei, til allrar hamingju þá hef ég ekki hugmynd um hver hann er því þá væri líklega lítið gaman að lifa. Ég lít þó svo á að tilgangur lífsins sé að lifa fallega, elska og njóta hverrar mínútu af hérverunni.
Stöðvar 2 árin eftirminnileg
Um allnokkurt skeið vannstu fyrir sunnan að loknu námi en flyst aftur norður árið 2002. Hvað stendur upp úr af starfsárunum fyrir sunnan?
Fólkið og reynslan. Ég var ekki búinn með BA-ritgerðina þegar ég byrjaði að vinna fyrir Stöð 2 1986 eða fáeinum mánuðum eftir að hún fór í loftið. Það var auðvitað gríðarlega skemmtilegur tími, æðislega mikil spenna í loftinu, ferlega mikill kraftur í öllu fólkinu sem þarna vann og bara einhver svona frumkvöðlaneisti. Orkan flæddi um allt. Þarna kynntist ég mörgu frábæru fólki og nokkrum af mínum bestu vinum og ég lærði líka að vinna undir mikilli pressu sem varð samt að einhverju leyti dálítið hættulegt, það er að segja maður varð pínu fíkinn í spennuna og oft stend ég mig að því að vinna best undir pressu og þá helst að skila af mér á síðustu mínútu. Það er ljótur ávani, ég veit það, en vonandi er mér smám saman að takast að temja mér agaðri vinnubrögð.
Var það stór ákvörðun að snúa aftur norður? Hafði Akureyri breyst?
Kannski var það stór ákvörðun en samt ekki. Ég var einn og engum háður, þannig lagað séð og þótt foreldrar mínir væru þá fluttir suður þá átti ég hér og á enn mikið af góðu frændfólki en vinir mínir voru flestir farnir suður. Ég þurfti alltént ekki að hugsa mig um tvisvar þegar í ljós kom að ég hafði verið valinn úr stórum hópi umsækjenda um nýtt starf í kynningarmálum Akureyrarbæjar. Mér fannst gott að koma heim og eftir um 20 ára fjarveru sá ég ýmislegt hér með glöggu gests auga. Mér þótti flest sem fyrir augu bar giska gott en sá samt að ýmsu mætti breyta. Já, auðvitað hafði bærinn breyst mjög mikið og stækkað. Mér fannst ég þekkja eða kannast við flesta bæjarbúa þegar ég flutti burtu en núna er bærinn orðið svo mannmargur að ég þekki bara brotabrot af íbúunum. Einhverra hluta vegna finnst mér alltaf jafn skrýtið að rekst á fólk á Akureyri sem ég hafði ekki hugmynd um að byggi hér. Samt var bæjarbragurinn svipaður og áður þótt nú væru bæði Sambandið og Kaupfélagið horfin veg allrar veraldar en áhrif þeirra voru að sjálfsögðu ennþá mjög sterk á Akureyri þegar ég ólst hér upp.
Nánasta samstarfið við Kristján Þór og Eirík Björn
Þú hefur unnið með ólíkum meirihlutum, nýjum herrum fylgja væntanlega nýir siðir, ertu til í að bera saman störf þín með meirihluta L-listans og hinna flokkanna áður?
Eitt sem gerir það svolítið sérkennilegt að starfa hjá hinu opinbera eða fyrir sveitarfélag eins og Akureyri er að það er skipt um yfirmenn og stefnu í ýmsum málum á fjögurra ára fresti. Nú verð ég auðvitað að gæta tungu minnar og auðvitað var skipt ótt og títt um forstjóra og markaðsstjóra hjá Stöð 2 og Bylgjunni í gamla daga en markmiðið og stefnan var samt alltaf meira eða minna hin sama, sumsé að afla áskrifenda og þar með tekna og það var bara hægt að gera með vinsælum þáttaröðum, góðum bíómyndum frá Ameríku, auglýsingum og svo breytingum á verðskrá. Stjórn sveitarfélags er auðvitað miklu flóknari og hér takast á fleiri kraftar ef svo má segja. Pólitískir fulltrúar eru stundum nokkuð fjarri því að vera sammála um leiðir til að ná settum markmiðum. Ég hef unnið fyrir þrjá ólíka meirihluta og ætli ég hafi ekki unnið með fimm bæjarstjórum núna. Þetta er allt öndvegisfólk en nánast hef ég trúlega unnið með Kristjáni Þór og Eiríki Birni. Við Kristján vorum og erum góðir félagar og gátum rætt allt sem þurfti að ræða án nokkurra vífillengja eða undanbragða. Svipað gildir um Eirík. Við hittumst vikulega til að fara yfir ýmis mál og það er kannski fyrst núna með L-listanum sem ég upplifi mig svolítið eins og almannatengil fyrir bæinn þótt ég komi ekki fram fyrir bæjarins hönd. Ég get þjónað sem upplýsingafulltrúi bæjarins en vil ekki vera eins konar talsmaður meirihlutans hverju sinni, enda hefði ég þá ekki gegnt þessu starfi í næstum því þrjú kjörtímabil. Skilin á milli pólitíkurinnar og hins faglega starfs sem unnið er af starfsfólki bæjarins verða að vera skýr þótt stundum sé nokkuð erfitt að finna línuna sem liggur þarna á milli.
Þú virðist skapandi maður, er vinnan þín skapandi? Hvað er skemmtilegast. En leiðinlegast?
Já, vinnan mín á Akureyrarstofu er sannarlega skapandi. Þar erum við alltaf að búa eitthvað til og byggja upp. Samstarfsfólkið er að mínu viti ákaflega hæft en stundum fattar fólk líklega ekki alveg hvað við erum að gera eða lítur á afrakstur starfa okkar sem sjálfsagðan hlut, eitthvað sem hefði alltaf átt að vera „einmitt svona“. Þá á ég til dæmis við uppbygginguna í ferðamálum, menningarmálin, alla skipulagða viðburði, útgáfumálin, auglýsingarnar, heimasíðurnar og stuðninginn við atvinnulífið í bænum. Á minni könnu eru fyrst og fremst útlitsmál, mestöll útgáfa á vegum Akureyrarbæjar, flestar auglýsingar og herferðir, greinaskrif fyrir bæklinga og fleira, ritun fréttatilkynninga, blaðamannafundir, myndataka og svo heimasíðurnar akureyri.is og visitakureyri.is með öllum sínum undirsíðum. Þarna er stanslaust verið að skapa og maður er stanslaust að sjá eitthvað verða til. Þú heldur kannski að ég sé að plata en ég man bara ekki eftir neinu sem er leiðinlegt við vinnuna mína, nema þá kannski afgreiðsla styrktarlína, uppáskrift reikninga og svo eru launakjörin ekki mjög skemmtileg. Allt annað er skemmtilegt.
Hún er mér allt
Víkjum ögn að hinu persónulega. Ef mér skjátlast ekki áttu eina dóttur sem þú skrifar stundum um t.d. á Facebook. Segðu okkur aðeins frá sambandi ykkar feðginanna? Er hún það besta sem birst hefur í lífi þínu?
Það hefur margt yndislegt og gott skotið upp kollinum í lífi mínu en jú, ég held að ég særi engan þótt ég segi að hún sé það besta. Ég var á 45. aldursári þegar hún leit dagsins ljós einn undurfagran júlímorgun á fæðingadeild FSA. Ég var barnlaus áður en Aðalheiður Anna kom til skjalanna og kannski fann ég þar að einhverju leyti margumræddan tilgang lífsins? Fyrstu árin var hún fyrir sunnan þar sem móðir hennar var í námi og ég var hjá þeim í feðraorlofinu mínu. Síðan var ég meira og minna einn með hana hér á Akureyri í rúmt ár og það var stórkostleg lífsreynsla. Við urðum auðvitað afskaplega náin og ég fékk að fylgjast með þroska hennar, upplifa allar sorgir og sigra, gleði og vonbrigði. Auðvitað finnst hverjum sinn fugl fagur en Aðalheiður Anna er ákaflega vel gerð stúlka og einstaklega glaðlynd. Yfirleitt þakka ég fyrir það á hverjum morgni að fá enn einu sinni að líta nýjan dag. Þá þakka ég líka fyrir að eiga þessa yndislegu dóttur. Jú, hún er mér allt. Ef mér væri sagt að ég fengi aldrei aftur að líta birtu augna hennar þá held ég að augu mín myndu aldrei ljúkast upp aftur.
Hún Aðalheiður Anna býr nú fyrir sunnan að mestu, ekki satt? Erfiðar aðskilnaðarstundir hljóta að fylgja. Er söknuður í hjarta þínu alla þá daga sem þið náið ekki að hittast?
Við móðir hennar höfum slitið samvistir og nú býr Aðalheiður Anna í Reykjavík. Hún flutti suður í ágúst síðasta haust. Ég sé hana því allt of sjaldan núorðið, enda er það varla á færi venjulegra daglaunamanna lengur að fljúga innanlands. Gríðarleg hækkun fargjalda í innanlandsflugi er fjandsamleg fjölbreytilegum fjölskyldumynstrum nútímans. En auðvitað notum við hvert tækifæri til að hittast og það verður stöðugt erfiðara að kveðjast. Ég skammast mín ekkert fyrir að segja það að nú orðið kveð ég hana undantekningarlaust með tárum og stundum ekkasogum. Þetta verður sífellt erfiðara. Auðvitað hugsa ég ekki um hana öllum stundum því þá væri ég óvinnufær og gæti heldur ekki sinnt öðru fólki en á viðkvæmum stundum þyrmir yfir mig að hafa hana ekki nærri. En svo birtir upp að nýju og hún verður okkur hér fyrir norðan í júlí og ágúst í sumar. Þá verður hátíð í bæ og við förum saman í útilegur og að veiða og svoleiðis.
Það er ekki sjálfgefið að heyra karl tala svona fallega og einlægt. Tala karlmenn almennt ekki nóg um tilfinningar sínar?
Æ, ég veit það ekki. Fólk sem stanslaust talar um tilfinningar sínar og vill brjóta allt til mergjar er ekki endilega skemmtilegustu sessunautarnir í strætó lífsins. Ég finn á hinn bóginn mikið til með þeim sem aldrei geta opnað sig og sagt hvernig þeim líður, hvort heldur það er vel eða illa. Ég er sennilega dálítið mikil tilfinningavera og nenni yfirleitt ekki að leyna fyrir þeim sem ég treysti hvernig mér líður. Sumt fólk talar ekki nógu mikið um tilfinningar sínar og lengi vel hafa karlar verið mikill meirihluti í þeim hópi þótt vonandi sé það að breytast eitthvað.
Myndirðu kalla þig femínista?
Ég er ekki viss um að ég kunni fræðilega skilgreiningu á því hvað það er að vera femínisti og ég hef á tilfinningunni að ég fylli ekki þann flokk. Hins vegar er ég mikill jafnréttissinni og finnst launamunur kynjanna og annað kynbundið óréttlæti vera út í hött. Kannski hugsaði ég ekki mikið út í þetta á árum áður en núna eftir að ég eignaðist dásamlega og gáfaða dóttur þá finnst mér óþolandi og óhugsandi að þessi augasteinn lífs míns eigi að búa við eitthvert óréttlæti bara af því að hún er kona. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að svo verði.
Ertu til í að ræða einkamál enn frekar? Er ekki rétt hjá mér að þú hafir ekki alls fyrir löngu orðið ástfanginn af akureyrskri konu?
Hún er raunar utan af Ársskógssandi og heitir Laufey Hallfríður Svavarsdóttir. Jú, ég er yfir mig ástfanginn af henni og það var mikið happ fyrir mig að hafa kynnst henni. Við erum farin að búa saman með dætrum hennar tveimur sem hafa tekið mér opnum örmum og ég vona að við getum staðið hlið við hlið ævina á enda. Það er ekkert flóknara.
Togstreita listar og lífsnautna
Víkjum þá sögunni að listsköpun þinni. Þú hefur gaman að ljósmyndun, en vatnslitamyndir eru þín stóra listástríða, ekki satt? Hvað gefur myndlistin þér?
Böns of monní, eins og Megas sagði. Nei, myndlistin gefur mér fyrst og fremst útrás og hugarró. Mér finnst hvort tveggja yndislegt, að mála úti í náttúrunni og heima í herberginu mínu. Ég er örugglega afleitur málari en mér fer smám saman fram og það finnst mér gaman. Ætli það sé nokkuð meira fullnægjandi en að finna að maður er örlítið betri í dag en í gær?
Hefur það blundað í þér að feta stíg listabrautarinnar til fulls? Pakka Oddi Helga og Eiríki Birni niður í kassa og leggja allt undir í listinni?
Já, það hefur blundað í mér að feta listabrautina en kannski er ég bara svo mikill lífsnautamaður að ég nenni ekki að taka sjénsinn á því að eiga ekki til hnífs og skeiðar. Það eru margir kallaðir en fáir útvaldir á þessu sviði. Á sínum tíma þreytti ég inntökupróf í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og ætlaði að leggja þetta fyrir mig en inntökunefndin hafnaði mér af því að ég kunni ekki að teikna þvottaklemmu. Og þá fór ég í Háskóla Íslands og sé ekki eftir því.
Þú ert líka forfallinn veiðiáhugamaður, hvað gefur veiðin þér einkum?
Veiðin gefur mér nákvæmlega það sama og myndlistin, svo einkennilegt sem það kann að virðast. Að standa einn með flugustöngina úti í guðs grænni náttúrunni með kalt vatn upp á mið læri, fylgjast með lífríkinu, maula samlokuna sína, fá kannski einn og einn fisk, veitir einstaka hvíld, útrás fyrir veiðieðlið og mikla hugarró. Raunar hef ég sameinað þetta tvennt nú á seinni árum, fluguveiðina og myndlistina, eftir að ég kynntist Guðmundi Ármann og fór að veiða með honum. Núna förum við aldrei svo að veiða að við höfum ekki vatnslitina með og málum ef lítið er af fiski eða þegar hlé er gert á veiðinni um miðjan dag. Það er ferlega notalegt.
Að lokum: Ef þú værir 20 ára gamall, nýútskrifaður úr framhaldsskóla og fengir annað tækifæri til að marka framtíð þína, hvað myndirðu læra, að hverju myndirðu helst stefna og hvað myndirðu gera öðruvísi en þú hefur gert?
Hvað söng ekki Édith Piaf um árið? „Non, je ne regrette rien!“ Nei, ég sé ekki eftir neinu og líklega er það þannig með mig. Ég forðast að leiða hugann að svarinu við þessari spurningu því mér finnst kjánalegt að horfa á líf sitt undir einhverjum „ég-hefði-átt-að-formerkjum“ og örugglega er slíkur hugsunarháttur ekki til þess fallinn að auka hamingju manna. Kannski hefði ég fetað þyrnum stráða listabrautina ef ég hefði haft rænu á að læra að teikna þvottaklemmu, ég veit það ekki. Ég er bara sáttur við sjálfan mig, Guð og menn. Þakka þér fyrir.
Viðtal Björn Þorláksson
Myndir Völundur Jónsson