Í síðustu viku fjallaði ég um Spítalaveg 17 og þeirri umfjöllun fylgi ég eftir með næstu tveimur húsum, þ.e. húsum númer 19 og 21. Hvort um sig stórglæsileg hús en mjög ólík, annað 105 ára bárujárnsklætt timburhús en hitt 68 ára steinhús undir áhrifum frá Funkis-stíl. Samkvæmt skilningi margra liggja mörk Brekkunnar og Innbæjarins á þessum stað, þ.e. þar sem Spítalavegurinn mætir Eyrarlandsveginum og því mætti kalla þessi hús einskonar útverði Innbæjarins. En víkjum nú að húsunum tveimur.
Spítalaveg 19 reistu Árni Þorgrímsson og Ólafur Sumarliðason árið 1908. Líkt og númer 17 hefur það skipst milli eigendanna í tvo eignarhluta, líklegast hafa þeir búið sinn á hvorri hæð frekar en húsinu hafi verið skipt að miðju. En húsið er af algengri gerð timburhúsa, tvílyft með lágu risi og á steyptum kjallara. Beint niður undir húsinu, við Hafnarstræti stendur mikil torfa svipaðra húsa og Spítalavegur 19, sem reyndar eru nokkuð stærri bæði að grunnfleti og hæð.
Bakbygging með hallandi þaki gengur út úr húsinu á norðvesturhorni og á norðurgafli er inngönguskúr. Allt er húsið bárujárnsklætt og krosspóstar eru í gluggum. Eins og raunar öll þessi efsta húsaröð Spítalavegs er húsið og umhverfi þess allt hið glæsilegasta, húsið í góðri hirðu og lóð gróin og vel hirt. Ein íbúð er í húsinu.
Efsta húsið við Spítalaveg og eflaust fyrir mörgum efsta hús Innbæjarins er Spítalavegur 21. Húsið reistu Alfreð Steinþórsson og Sigurgeir Jónsson árið 1945 en efstu húsin í Spítalavegi eiga það öll sameiginlegt að hafa verið reist af tveimur mönnum sem tvíbýli í upphafi. Spítalavegur 21 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og á kjallara. Sunnan hússins stendur bílskúr með valmaþaki. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og ekki þykir mér ólíklegt að einnig sé íbúð í kjallara. Húsið mun lítið breytt frá upphafi og er í frábæru ásigkomulagi og lítur vel út og sama á við um umhverfi þess. Myndirnar meðfylgjandi tók ég á miðnæturhjóltúr þ. 10.júlí sl.
Þeim sem luma á fróðleik og eða sögum um Hús vikunnar er velkomið að deila þeim hér á athugasemdakerfinu. Það er nú einu sinni svo að um hvert af þessum húsum væri hægt að skrifa mikil ritverk um sögu þeirra og íbúa gegn um tíðina.
Arnór Bliki Hallmundsson