Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Fyrsti lista lýðháskólinn á Íslandi

$
0
0
Stjórn LungA skólans

Stjórn LungA skólans

Fyrsti lista lýðháskóli Íslands hefur verið stofnaður á Seyðisfirði. Skólinn nefnist LungA skólinn og er kenndur við LungA listahátíð ungs fólks á Austurlandi.

Á ný afstaðinni LungA hátíðinni á Seyðisfirði, kom stjórn LungA skólans saman í fyrsta skipti auk þess sem að opnað var fyrir umsóknir í fyrstu lotu LungA skólans sem er svokallað „BETA“ prógram og hefst 10. mars og lýkur 4. apríl 2014, en þar fá 20 nemendur samþjappaða útgáfu af námskrá skólans auk þess að fá tækifæri til þess að taka þátt í endanlegri mótun LungA Skólans.

LungA Skólinn er alþjóðleg menntastofnun sem leggur áherslu á eflingu sjálfsins í gegnum listir og sköpun. Skólinn byggir á sömu grunngildum og LungA hátíðin auk þess sem skólinn sækir innblástur í hina rótgrónu skandinavísku lýðháskóla. Boðið verður upp á 16 – 18 vikna prógram sem saman stendur af listasmiðjum, fyrirlestrum og ýmiskonar verkefnum þar sem nemendunum gefst tækifæri til þess að víkka sjóndeildarhringinn, eignast nýja vini og læra að leita uppi ævintýri í hversdagsleikanum.
Fyrsta önnin í fullri lengd hefst  25. ágúst 2014 og opnað verður fyrir umsóknir í þann áfanga seinna á árinu.

Stjórn skólans skipa sex einstaklingar með breiðan bakgrunn og fjölbreytta hæfileika en hlutverk hennar er meðal annars að vera ráðgefandi í daglegu starfi, standa vörð um gildi skólans auk þess að móta og halda utan um stefnu stofnunarinnar. Eftirtaldir aðilar sitja í stjórn LungA skólans :

Dýri Jónsson (formaður), eigandi Hótel Öldunnar á Seyðisfirði og framkvæmdastjóri Vesturports
Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur), grafískur hönnuður og prófessor við Listaháskóla Íslands
Sigrún Halla Unnarsdóttir, fatahönnuður og fyrrum LungA ráðs meðlimur
Nína Magnúsdóttir, myndlistakona, ein af stofnendum Sequenses myndlistarhátíðar, Kling og Bang og fyrrum stjórnarformaður Nýlistasafnsins
Ólafur Stefánsson, handboltamaður, þjálfari og heimspekingur
Margrét Pála Ólafsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur og stofnandi Hjallastefnunar

„Það sem fær mig til þess að trúa á LungA Skólann er staðsetningin Seyðisfjörður. Ég get ekki ímyndað mér betri stað til þess að þroska heilbrigt sjálf og byggja upp það einstaka heldur en þá orkustöð sem fjörðurinn er. Að stilla upp skapandi hugsun fyrir það óorðna en mögulega í skel í fjallalíki með hugvekjandi perlu í botninum,“ segir Guðmundur Oddur.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718