Í dag, laugardaginn 27. júlí, kl. 14 safnast saman hópur fólks og gengur svokallaða Druslugöngu frá Akureyrarkirkju. Gangan er til þess gerð að setja fram kröfu um að sama hvernig nokkur manneskja klæði sig eða hegði sér sé aldrei verið að bjóða upp á nauðgun.
„Ég á rétt á að vera í þröngum fötum, stuttum fötum, flegnum fötum og þess vegna bara allsber, en þú átt aldrei rétt á að nauðga mér,“ segir einn af aðstandendum göngunnar.
Þetta er í þriðja sinn sem Druslugangan er gengin á Akureyri en það var árið 2011 sem fyrsta gangan var gengin í Toronto í Kanada og síðar sama ár á fjölmörgum stöðum í heiminum og þar á meðal Akureyri. Þátttakan hefur farið vaxandi og ekki síður umræðan um málefni sem tengjast nauðgunum.
„Það er ekki síst í minni samfélögum sem mikilvægt er að vinna gegn druslustimplun og þolendaskömm,“ segir í umræðum á Facebooksíðu göngunnar.
Gangan hefst kl. 14 við Akureyrarkirkju og verður gengið niður Gilið og inn á Ráðhústorg.