Fyrir nokkrum vikum greindi Akureyri vikublað frá því að Þorsteinn Baldvinsson, 19 ára trommari frá Akureyri, tæki þátt í keppni á vefsíðu sjónvarpsstjörnunnar Ryan Seacrest. Þorsteinn, eða Stony eins og hann kallar sig líka, gerði sína eigin útgáfu af laginu Can´t hold us með Maclemore sem þykir afar frumleg og skemmtileg.
Keppnin er með útsláttarfyrirkomulagi, gestir vefsíðunnar kjósa það lag sem þeim þykir best og einu sinni í viku dettur einn þátttakandi út. Nú er sjötta og síðasta umferð keppninnar og aðeins tveir keppendur eftir og það eru Stony og stúlka sem kallar sig Vali.
Hér er hægt að fara inn á vef keppninnar og kjósa. Hægt er að kjósa einu sinni á dag og eins og staðan er núna er mjótt á mununum en Þorsteinn er þó með 51,78% atkvæða.
Ryan Seacrest heldur þessa keppni á vef sínum á hverju ári en þar velur hann ábreiður (e. cover) af fjórum vinsælustu lögum sumarsins, sem núna eru lögin Get Lucky, Blurred Lines, Can’t Hold Us og Radioactive. „Ég fékk bara skilaboð um að ég væri inni í þessari keppni,“ segir Þorsteinn, en þá var hans útgáfa búin að vera í keppninni í þrjá daga.
Þorsteinn byrjaði að tromma þegar hann var 11 ára og hefur stundað nám í Tónlistarskólanum á Akureyri undanfarinn ár. Hann á eitt ár eftir hér í Tónlistarskólanum og eftir það stefni hann á að komast í Berkeley háskólann í Kaliforníu.
Hér fyrir neðan má hlusta á útgáfu Stony af laginu Can´t hold us, en hún er mjög sérstök því í henni eru hljóðin tekin upp úr umhverfinu og svo spiluð í endurtekningu. Myndbandið hefur notið mikilla vinsælda á Youtube og nú hafa yfir 862.000 manns horft á það og tæplega 10.000 eru orðnir áskrifendur af Youtube stöð Þorsteins. Gísli Steinar Jóhannesson kvikmyndagerðarmaður aðstoðaði Þorstein við gerð myndbandsins.