Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Tilraunakennd framtíðar-fortíðar fantasía

$
0
0

carcasse

Myndlistamaðurinn Gústav Geir Bollason og franski vídeólistamaðurinn Clementine Roy vinna nú að spennandi verkefni saman sem þau kalla Carcasse eða Hræ. Um er að ræða stutta kvikmynd sem fjallar um það hvernig mennirnir bjarga sér eftir að eitthvað mikið hefur gerst á jörðinni, einhverskonar hamfarir, svo öll nútímatækni er gagnslaus, það er ekkert rafmagn, ekkert bensín og engar vatnslagnir, stökk til baka um hundruðir ára.

„Þetta er einskonar vísindaskáldsaga, en samt ekki, því við erum að vinna með hluti sem eru raunverulegir, en bara út frá allt öðru sjónarhorni,“ segir Gústav Geir. „Við búum til heilan heim þar sem lífið snýst um að endurnýta alla hluti og finna önnur not fyrir hluti sem eru til“. Sem dæmi hafa þau útbúið hálfan bíl sem hestvagn, byggt veggi úr notuðum hjólbörðum og sett upp vatnsfangara, sem safnar í sig vatni úr þoku. Gústav bendir á að þetta sé alls ekki óþekkt enda séu hlutir víða nýttir á mjög fjölbreytilegan hátt og hafi verið það í mun meira mæli í fortíðinni.

„Þetta er að einhverju leyti nostalgía,“ segir Gústav en myndin á að gerast á óþekktum stað en hefur mjög íslenskt yfirbragð. „Hér á Íslandi var bændamenningin mjög lengi við lýði og ekki svo afskaplega langt síðan síðasta fólkið flutti úr torfkofunum, þá var allt nýtt og endurnýtt eins og hægt var; við vorum ansi lengi á leiðinni inn í nútímann og að hluta til vinnum við með mínar minningar úr sveitinni frá því ég var barn. Það sem vekur áhuga okkar beggja er óreiðan en einnig umbreytingin hvernig úreltir hlutir og ónýt tæki verða að einhverju öðru eða öðlast nýtt/gamalt hlutverk og notagildi. En þetta hefur auðvitað líka verið mikið gert þar sem þess hefur verið þörf td. í austur-Evrópu og löndum sem tilheyrðu fyrrum Sovétríkjunum,“ segir Gústav og Clementine bætir því við að foreldrar hennar hafi búið í sveit í fjallahéruðum Frakklands og þá hafi margt skort og nýtni því í fyrirrúmi.

20110607__ICELAND-volundur-_MG_6728_vef

Kvikmyndin byggir að hluta til á hugmyndum sem Gústav Geir vann með fyrir sýningu sem haldin var í Listasafninu á Akureyri haustið 2011 og vakti mikla athygli á þessum norðlenska myndlistarmanni sem ekki allir vissu af. „Þar sýndi ég teikningar af þessum hugmyndum en við Clementine höfum síðan þróað hugmyndina í sameiningu,“ segir Gústav.

Gústav Geir og Clementine eru byrjuð að taka upp myndina en eru þó enn að safna fjármagni til verkefnisins. „Við söfnum framlögum á vef sem heitir KissKissBankBank og erum komin með rétt rúmlega 4000 evrur en höfum sett markið á 5000 evrur. Þetta virkar þannig að hver sem er getur skráð sig fyrir framlagi til verkefnisins en ef ekki tekst að safna nægum pening er enginn rukkaður um sitt framlag. Við fengum góðan styrk frá Eyþing en það er hægt að gera meira eftir því sem meiri peningur safnast. Það er ekki mikill kostnaður við verkefnið því við gerum eins mikið og hægt er sjálf, en það er fólk að aðstoða okkur við ýmislegt og þá þarf helst að greiða fyrir það, t.d. eru bændur að aðstoða okkur heilmikið en einnig þurfum við fólk til að aðstoða við tæknileg atriði eins og hljóðupptökur, en Clementine hefur mikla reynslu af kvikmyndatöku svo við erum í nokkuð góðum málum hvað það varðar“.

Myndin verður sýnd í listasöfnum og verður einnig send á kvikmyndahátíðir fyrir tilraunakenndar kvikmyndir enda ekki um að ræða hefðbundna kvikmynd með hefðbundnum söguþræði heldur myndræna framsetningu á hugmyndum, náttúrunni og árstíðum. „Við erum ekki búin að gera nákvæmt handrit heldur vinnum við bara við það sem gerist á meðan við tökum upp,“ segir Gústav að lokum og hlær þessum innilega hlátri sem einkennir hann.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718