Refsifangi sem réðist í fyrrasumar á annan fanga í borðsal Fangelsisins á Akureyri hefur í Héraðsdómi verður dæmdur til að afplána einn mánuð aukalega vegna brots síns. Hann þarf einnig að greiða um hálfa milljón króna í kostnað og bætur.
Ákært var fyrir líkamsárás þar sem fanginn réðist að öðrum fanga, tók hann hálstaki og ýtti honum fram og til baka um eldhúsið, m.a. á eldavél, þar til þeir voru skildir að. Við átökin hlaut fórnarlambið verki undir rifjum, hálsverk og marðist á hægri upphandlegg og brjóstkassa. Hinn fanginn neitaði sök og krafðist sýknu en án árangurs.
Fram kemur í dómsskjölum að fangaverðir og lögreglumenn hafi brugðist skjótt við og stöðvað árásina en atvikið sást á myndskeiði úr öryggismyndavélakerfi fangelsisins. Ákærði lýsti atvikinu sem nokkurra sekúndna „hnoði“ milli þeirra en hann bar fyrir dómi að sá sem hann réðist á væri þekktur fyrir að etja föngum saman og ala á óvild milli manna. Hefði ákærði reynt að setja þær deilur niður, en sjálfur hefði hann áður gert slíkt á Litla-Hrauni sem talsmaður fanga þar.
Í dómsniðurstöðu segir að við ákvörðun refsingar sé horft til fyrri sakaferils ákærða.