Mikil vonbrigði eru meðal fagaðila í geðheilbrigðismálum eftir að í ljós kom að enginn sótti um stöðu barna- og unglingageðlæknis við Sjúkrahúsið á Akureyri. Enginn barna- og unglingageðlæknir hefur starfað utan höfuðborgarsvæðisins síðan í byrjun apríl en þá færðist starfsemi barna- og unglingageðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri undir hatt barnadeildar og vegna óánægju með það sögðu báðir sérfræðingarnir á deildinni, sálfræðingur og geðlæknir, upp störfum, eftir því sem fram kemur á fréttavef Rúv. Auglýst var eftir barna- og unglingageðlækni í vor en slíkir sérfræðingar eru ekki á hverju strái og þegar umsóknarfresturinn rann út 6. júlí síðastlinn hafði enginn sótt um stöðuna.
Staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á NA-landi var rædd á Alþingi fyrir skemmstu. Þá sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, að ekki væri hægt að berja fólk til búsetu, vandinn væri ekki bara spurning um peninga.
Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG, segir að 20% barna eigi við sálfræði- eða geðvanda að stríða. Allt að 10% barna hér á landi þurfi meðferð. Skólakerfið sé ekki í stakk búið til að sinna börnum með geðrænan vanda. Staðan sé alvarleg, ekki síst á Norðurlandi.