Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Álfabækur sýndar og seldar á Amtsbókasafninu

$
0
0
GARASON með eitt verka sinna

GARASON með eitt verka sinna

Á föstudaginn, 28. júní nk. opnar Amtsbókasafnið sýningu á myndverkum Dalvíkingsins Guðlaugs Arasonar. Sýningin samanstendur af litlum bókaskápum fullum af örsmáum, þekktum, íslenskum sem erlendum bókum. „Hver bókaskápur er heimur útaf fyrir sig og þar búa bæði skáld og ýmsar kynjaverur. Bækurnar kallar Guðlaugur álfabækur og segja má að hér sé um nýja tegund myndlistar að ræða,“ segir Nanna Lind Svavarsdóttir, verkefnastjóri hjá Amtsbókasafninu.

Amtsbókasafnið er fyrsti staðurinn til að setja upp sýningu á myndverkum Guðlaugs en verkin eru unnin á undanförnum þremur árum meðan hann bjó í Sviss. Guðlaugur er betur þekktur sem rithöfundur en myndlistarmaður. Nafn hans, Guðlaugur Arason, samanstendur af fimmtán bókstöfum og rúmast illa á álfabókum. Þess vegna stytti hann nafnið niður í sjö stafi og notar GARASON sem listamannsnafn.

Bækurnar eru allar úr bókasafni listamannsins en innviður allra álfabókanna er timbur frá Costa Rica. Öll verkin eru til sölu en þau eru öll nafnlaus og sú kvöð fylgir að kaupandinn nefni verkið í höfuðið á skáldi, innlendu eða erlendu, rithöfundi, fræðimanni eða öðrum þeim sem fengist hefur við skriftir og kaupandi vill heiðra. „Enginn getur keypt nema tileinka verkið. Því miður“.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718