Félagsmálaráð Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum þann 2. júlí síðastliðinn að Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar og Soffía Lárusdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar taki þátt í verkefninu CONNECT í umsjón Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar (NVC).
Verkefnið felur í sér skipulagningu og innleiðingu á velferðartækni í framkvæmd velferðarþjónustu. Velferðarmiðstöðin hefur nú leitað eftir þátttöku fulltrúa félagslegrar þjónustu sveitarfélagsins í verkefninu, en áformað er að tvö sveitarfélög frá hverju norðurlandanna taki þátt og mögulega líka fulltrúi frá landssamböndum sveitarfélaga.
Á vef Norden kemur fram að markmið verkefnisins eru:
- Að vinna saman að gerð verkferla fyrir starf sveitarfélaganna á sviði velferðartækni
- Að þróa „verkfærakassa“ með hagnýtum hjálpargögnum fyrir ýmiskonar samstarfsaðila hjá sveitarfélögunum og á landsvísu
- Að fyrirbyggja erfiðleika í þróunarferlinu með því að deila reynslu, bæði góðri og slæmri, af starfinu í löndunum
- Að örva markað fyrir nýsköpun og vöruframleiðslu á sviði velferðartækni á Norðurlöndum og greina möguleika á útflutningi til annarra landa
Kostnaður vegna þátttöku er greiddur af NVC og ráðgert er að innleiðingu fylgi einnig fjárstyrkur til þeirra sveitarfélaga sem taka þátt.
- EMI