„Það var fyrst og fremst vistvæni hlutinn sem rak mig út í þetta ævintýri,“ segir Sigurður Eiríksson, stjórnarformaður Íslensks eldsneytis ehf. en fyrirtækið stendur að opnun fyrstu lífeldsneytisstöðvarinnar á Íslandi á Sauðárkróki. Eldsneytið er unnið úr repjuolíu frá Danmörku og Hollandi og út í hana er blandað metanóli sem framleitt er á Svartsengi.
„Við sáum hér ákveðið tækifæri með heimamönnum sem hafa sýnt mikinn áhuga á að vera vistvænir, eins og t.d. með sorpflokkun og öðru. Náttúran býður upp á allt, það er bara spurning um að nýta það,“ segir Sigurður.
Íslenskt eldsneyti ehf. hefur hins vegar einnig verið að skoða möguleikana á að framleiða eldsneyti úr þörungum. „Við erum hér með nægan koltvísýring, heitt vatn og ódýrt rafmagn. Það er allt sem þarf til að rækta þörunga en þeir gefa síðan af sér olíu,“ segir Sigurður, en hann hefur nú hafið samstarf við sænskt fyrirtæki vegna þessa.
Rætt var við Sigurð um framtíðaráform fyrirtækisins í Að Norðan um daginn:
- EMI