N1-mót KA í knattspyrnu hefst í dag, miðvikudaginn 2. júlí, og stendur yfir til laugardagsins 5. júlí á svæði félagsins. Rétt eins og undanfarin ár koma þátttakendur af öllu landinu en mótið er ætlað drengjum sem spila fótbolta í 5. flokki. Leikirnir hefjast klukkan 15 í dag.
Háttvísi verður í hávegum höfð á meðan á mótinu stendur og því verða sérstök verðlaun veitt fyrir háttvísi innan vallar sem utan hans. Auk þess verða veitt verðlaun fyrir umgengni og framkomu í skólum og matsal, en þátttakendur gista að þessu sinni m.a. í Lundarskóla og Brekkuskóla.
Á morgun, fimmtudaginn 3. júlí, verður sett upp Minute to Win It þrautabraut við KA svæðið á milli kl. 13-17. Áhugasamir fá þar tækifæri til að leysa ýmsar þrautir og verkefni á innan við 60 sekúndum. Ingólfur Þórarinsson, eða Ingó Veðurguð eins og hann er jafnan kallaður, tekur á móti gestum og gangandi.
- EMI