Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

HM 1982 – smá nostalgía

$
0
0
Arnar Már Arngrímsson skrifar

Arnar Már Arngrímsson skrifar

Ég var tíu ára og ástin á boltanum hrein. Það var búið að finna upp endursýninguna en við fengum ekki nóg af því að endursýna sjálfir niðri á Menntaskólavelli í lélegum gæðum – Zico-spyrnur og Eder-þrusur og ímynduð sigurmörk á síðustu sekúndu. Það var bara eitt lið: Brasilía – en ég man flesta Ítalina: Zoff, Bergomi, Tardelli, Conti, Graziani, Rossi. En það var bara eitt lið og þrjú nöfn sem birtast mér í skærgulum treyjum; Sókrates, Eder, Zico. Vorum við örugglega komin með litasjónvarp?

Og þá var Vestur-Þýskaland. Harald Schumacher, Hans Peter Briegel, Paul Breitner,  Klaus Fischer, Karl Heinz Rumenigge. Bjarni Fel tönnlaðist á því að Hans Peter Briegel ætti sér fortíð sem tugþrautarmaður. Rumenigge eins og blanda af hermanni og Miele-þvottavél og hinir annað hvort AEG eða Siemens.

Stórtíðindi þegar Uli Stielike brenndi af víti á móti Frökkum í vítaspyrnukeppni og fór að gráta. Á Íslandi var þetta á allra vörum;  hér hafði karlmaður ekki grátið frá landnámi – ekki einu sinni yfir lauksöxun enda kom fyrsti laukurinn ekki til landsins fyrr en 1986 og var seldur undir borðið í Miklagarði. Nú er það hluti af leiknum að gráta, og detta og bera sig allt annað en mannalega. Og Tardelli bara trúir þessu ekki, bara trúir þessu ekki.

Þá voru menn mjóleggjaðir með rýran efri búk en samt til alls líklegir. Líklegir til að kveikja sér í sígarettu á meðan þeir bíða eftir rútunni sem mun flytja þá á áfangastað. Líklegir til að flauta á eftir stelpum. Líklegir til að halda upp á Bruce Lee og Burt Reynolds. Líklegir til að fara í bíó og sjá nýjustu stórmyndina með Bud Spencer og Terence Hill. Líklegir til að vera með plakat af Brooke Shields uppi á vegg.

Ólíklegir til að eiga hárvörusett eða raka á sér punginn eða eiga met í tölvuleik.

Síðan eru liðin 32 ár.  Ég hef spilað minn síðasta leik; að baki eru Zico-spyrnur og Eder-þrusur og ímynduð sigurmörk á síðustu sekúndu. Framundan jóga, stafaganga og leirböð í Hveragerði.  Og mig dreymir ekki lengur um adidas tango – einu  boltarnir sem ég mun kaupa eru æfingaboltar sem ég kaupi hjá Stebba sjúkraþjálfara.

Og enn æðir Tardelli um og bara trúir þessu ekki. Einfaldlega trúir þessu ekki.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718