Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Þess vegna kristinfræði!

$
0
0
Sindri

Sindri Geir Óskarsson skrifar

Á baksíðu síðasta tölublaðs Akureyri vikublaðs spyr Silja Björk hvers vegna kristinfræði sé skyldufag í grunnskólum, hvort ekki væri „nær að kenna börnum almenna siðfræði og samhug um hin fjölmörgu ólíku trúarbrögð og lífskoðanir, fremur en að þylja upp ævistörf Salómons konungs eins og páfagauka?“.

Þeir eru margir sem setja spurningarmerki við það að í grunnskólum sé kennd námsgrein sem nefnist kristinfræði og vissulega eru það gildar vangaveltur í ljósi þess að varla sé hægt að kalla íslenskt samfélag kristið, þ.e. þetta er ekki samfélag sem einkennist af kristinni trúrækni. Við búum við fjölhyggju og trúfrelsi á Íslandi, í ört smækkandi heimi verðum við fyrir sífellt meiri áhrifum frá hinum fjölbreyttu og ólíku menningar og trúarhefðum heimsins. Menningararfur okkar byggir hinsvegar á, og er rækilega mótaður af kristinni trú. Samfélag okkar, eins og öll samfélög í væstrænum heimi, hvílir á heimsmynd sem hefur þróast og mótast í samspili við kristinn arf fortíðar okkar. Því væri kannski hægt að tala um íslenskt samfélag sem post-kristið þar sem menning okkar er tengd kristni órjúfanlegum böndum þó að trúarlega hliðin sé ekki hluti af daglegu lífi allrar þjóðarinnar.

Ég á ekki margar minningar úr kristinfræði í grunnskóla þrátt fyrir að hafa haft góða kennara. Ég veit ekki hversu spennandi mér þótti fagið, en það sem ég man eftir á lítið skilt við trúboð. Ég man eftir að hafa lært um þá kristnu hátíðisdaga sem við höldum uppá og einhverjar dæmisögur las ég líka en mér þykir ólíklegt að ég hafi þurft að þylja upp ævistörf Salómons konungs (þrátt fyrir að vera að ljúka B.A gráðu í guðfræði veit ég ekki hvort ég gæti þulið þau upp). Ef það stendur til að ræða gagnsemi og tilvistarrétt kristinfræði í grunnskólum tel ég skynsamast að fletta upp í aðalnámskrá grunnskóla og sjá hverju sú kennsla á að skila.

Meðal markmiða í samfélagsgreina námi kemur fram að:

Við lok 4. bekkjar eigi nemandi m.a. að geta „áttað sig á að trúar- og lífsviðhorf fólks birtast í mismunandi viðhorfum, siðum og venjum,“ „velt fyrir sér nærtækum spurningum sem tengjast trú, lífsviðhorfum og breytni“, „sagt deili á nokkrum frásögnum, helstu hátíðum og siðum kristni og annarra trúarbragða, einkum í nærsamfélaginu“, „nefnt dæmi um trúarlegar vísanir í listum og bókmenntum“.

Við lok 10. bekkjar eigi nemandi m.a. að geta „útskýrt margbreytileika trúarbragða og lífsviðhorfa og greint áhrif þeirra á líf einstaklinga, hópa og samfélaga“, „fengist við og greint viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði og tengjast spurningum um merkingu og tilgang lífsins,“, „sýnt fram á læsi á frásagnir, hefðir, kenningar, hátíðir, siði og tákn kristni og annarra helstu trúarbragða heims,“, „rætt og borið saman ólík trúar- og lífsviðhorf og gert sér grein fyrir hvað er sameiginlegt og hvað sérstætt,“, „útskýrt trúarlegar vísanir og tjáningu í listum og bókmenntum“.

Ekki er gerð krafa í aðalnámskrá að kenndur sé sérstaklega áfangi sem heitir kristinfræði en vissulega á skv. henni að kenna um kristna trú sem og fræða um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir. Kristinfræði virðist eiga að stuðla að því að gera börn, læs á samfélag sitt, menningu og listir. Skilja á hvaða hátt kristni hefur mótað samfélagið okkar, m.a. hvað varðar helgidaga og hátíðir. Mér sýnast þessi markmið sem liggja kristinfræðikennslu til grundvallar vera vel ígrunduð og skynsamleg. Kristinfræði á ekki að vera kennd sem trúarinnræting heldur sem lykill að menningararfi okkar. Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart eftir að ég hóf nám í guðfræði er að sjá hvað samfélag okkar er gegnsýrt af trúarvísunum og hvað tungumál okkar, orðtök og hugmyndir sækja mikið í Biblíuna. Áhrif kristinnar trúar, menningar og hugsunar á samfélag okkar eru gífurleg, hvort sem okkur líkar það betur eða verr og því þykir mér nauðsynlegt að kristinfræði sé kennd í grunnskólum.

Við lifum við ákveðna fjölhyggju, sem er mjög jákvætt, en í þessu ástandi eigum við á hættu að glata tengingu við uppruna menningar okkar. Á sama tíma og við eigum að kynnast framandi menningarstraumum og trúarbrögðum annarra þjóða, hinni norrænu heiðni sem mótaði hugarheim forfeðra okkar og goðsagna og mýtuarfi heimsins, þurfum við að halda í kristinfræði. Eins og Carl Sagan sagði eftirminnilega þurfum við að þekkja fortíðina til að skilja samtíma okkar, þess vegna þarf að kenna kristinfræði, hvort sem hún gengur undir því nafni eða ekki.

Höfundur er guðfræðinemi.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718