Það er gaman að kvikna til vorsins með bænum okkar. Bærinn hefur verið kosinn sá fegursti á landi hér og víst er að þótt fleiri uppkomnir Akureyringar en færri þurfi að flytja á brott til þess að finna sín tækifæri vegna skorts á tækifærum í hinu bjarta norðri vöknar flestum brottfluttum bæjarbúanum um augu þegar hann snýr heim í fríum og lítur þessa vin gróðurs, sjávar, fjalla, og góðs mannlífs augum eftir langt hlé.
Akureyri er eins og önnur íslensk sveitarfélög, tengsl, völd, ættir og uppruni ráða nokkru hvort fólk fær framgang, hvort það hlýtur starf við hæfi, nýtur virðingar, blandast samfélaginu vel eða ekki. Í borgum þar sem ókunnugleiki fólks á millum þykir norm er einfaldara að auglýsa tækifærin og leggja hlutlægt mat á hver sé hæfastur í ráðningarferli. Ísland allt býr við slíkan nálægðarvanda vegna fámennis að halda má fram að sjaldnast sé gengið frá nokkurri ráðningu hér á landi án þess að einhver sem hefur með ráðningarvald að gera þekki þann persónulega sem stendur til að ráða hinum megin við borðið. Klanhyggjan á sér ýmis heiti sem ganga dags daglega undir ýmsum nöfnum, í þeim hópi eru Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, L-listinn, Björt framtíð, Samfylking, Vinstri grænir, Píratar og svo framvegis. Um leið og við kynnumst fólki, um leið og við treystum fólki, um leið og við förum að samsama okkur gildum sumra en annarra ekki verður til félagshugsun sem leiðir til þess að þau sem hafa völdin fá færi á að veita öðrum hlutdeild í völdunum. Þar er spurt um tengsl og persónulega eiginleika umfram annað. Á við um hið bjarta norður sem aðra íslenska bæi og ekki verður Reykjavík undanskilin.
Færa mætti rök fyrir að tengslahyggjan sé óhjákvæmileg í 320.000 manna dvergríki. Það mætti einnig færa rök fyrir að tengslahyggan reynist okkur dýr. Hvað verður um þá sem kjósa að lifa frjálsir og sjálfstæðir, halla sér aldrei að einu klíkubandi umfram annað? Hvað verður um þá sem trúa því að alþjóðleg menntun og hugmyndafræðilegir verðleikar séu meira virði en að ganga í einn íslenskan flokkshóp og styðja einn til að geta sjálfur notið stuðnings síðar?
Akureyri nýtur þess að hér varð umpólun valda fyrir fjórum árum. Ekkert sveitarfélag hefur gott af því að vera eign sama stjórnmálahópsins áratugum saman. Enginn á Akureyri frá einu kjörtímabili til annars.
Það er fallegt á Akureyri en það gæti orðið enn fallegra að búa hér ef þeir sem hafa völdin myndu átta sig á að vinur er sá er til vamms segir. Ólíkt fólk kemst oft að bestu niðurstöðunni, í kjölfar rökræðu. Þótt fólk greini á um leiðir til að halda gunnfánum lýðræðis á lofti er það ekki sjúkleikamerki heldur merki um heilbrigt lýðræði.
Hvað sem kemur upp úr kjörkössunum í vor væri gaman ef næsta kynslóð bæjarfulltrúa gæti hugleitt leiðir út úr klanhyggjunni sem þó er mikil áskorun í landi fámennisins.
Þannig myndum við gera góðan bæ enn betri.