Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að sú tilraun þegar verkafólk sættist á hóflegar kjarabætur í vetur í von um litla verðbólgu og aukinn stöðugleika hafi mistekist. Verkalýðshreyfingin hafi samið í þeirri trú að allir hópar þjóðfélagsins færu þessa leið. Kjarasamningar sem gerðir hafi verið síðan við aðra hópa sýni að meiri peningar virðist til skiptanna. Ferlið kalli á endurskoðun og aðgerðir þegar samningar losna í febrúar næstkomandi.
„Þessi tilraun er þegar orðin skökk, ég tel að hún hafi mistekist,“ segir Björn. Hann krefst leiðréttingar fyrir verkafólk. „Ég vil fá stærri hluta af kökunni eftir eitt ár fyrir mína félagsmenn.“
Baráttudagur verkafólks, 1. maí, er á morgun. Björn segir þann dag mikla hátíð í sínum huga þótt menn gangi missáttir til leiks ár hvert eftir því hve stórir sigrar hafi unnist.
Það ber til tíðinda að endurvakinn verður útifundur á Ráðhústorgi í kjölfar kröfugöngunnar klukkan 2 eftir áralangt hlé, að fundi loknum verður boðið upp á kaffi í Hofi.
„Ég held við séum alltaf að vinna einhverja sigra þótt þeir séu misstórir, fyrsti maí er alltaf okkar uppskeruhátíð þótt stundum sé maður ekki sáttur við hvernig gæðunum er skipt.“
-BÞ