Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Að leggja niður atvinnuleikhús

$
0
0
Björn Þorláksson skrifar

Björn Þorláksson skrifar

Í könnun sem Háskólinn á Akureyri lét gera haustið 2011 kom í ljós að mikill meirihluti bæjarbúa á Akureyri vildi starfrækja áfram atvinnuleikhús.

Þá fór fram umræða um hvort til væru peningar fyrir slíku en vilji bæjarbúa var skýr. Áfram atvinnuleikhús.

Enn stendur LA fyrir miklum fjárhagsvanda en ekki er vitað hvort kannað hafi verið sérstaklega upp á nýtt hvort bæjarbúar vilji áfram skapandi atvinnustarfsemi með fjölda afleiddum störfum eða séu sáttir við að loka og læsa hinu fornfræga Samkomuhúsi.

Það er óneitanlega einkennilegur bragur á þeirri afgreiðslu bæjarstjórnar Akureyrar, að spyrna ekki fastar við fótum en raun ber vitni. Að reikna tap eða hagnað af menningarstarfsemi er ekki hægt. Lífsgæði verða ekki mæld í krónum og aurum. Að njóta faglegrar og skapandi leiklistar í héraði getur kveikt hugmynd í kolli áhorfanda sem verður samfélagi hans til ómældra heilla síðar. Sú uppljómun getur líka skilað fleiri afleiddum krónum í kassa en fólk gerir sér grein fyrir og laðað að sér verðmætt fólk fyrir samfélög.

Forræði hugmynda skiptir máli. Að geta alið upp kynslóðir komandi áratuga við atvinnuleiklistarstarf á Akureyri skiptir máli.
Það virðst sem bæjarstjórn Akureyrar rugli saman tveimur óskyldum málum. Annað snýr að taprekstri sem verður að bregðast við. Hitt varðar framtíð atvinnuleikhúss á Akureyri.

Tökum dæmi úr einkageiranum sem þó hefur allt aðrar og minni skyldur en hið opinbera: Nú drullar ritstjóri Akureyrar vikublaðs upp á bak með galinni frétt eða óráðsíu og er rekinn. Er þá rökleg niðurstaða að leggja niður blaðið?
Varla. Nýr maður kæmi í brúna og blaðið myndi halda áfram að þjónusta Norðlendinga.

Með sama skapi getur vel verið að nýtt fólk þurfi að einhverju leyti í áhöfn LA. Mannskapnum sem stýrt hefur fleyinu sl. misseri verður þó seint fullþakkað fyrir mikinn listrænan og ögrandi metnað en breytir ekki því að gera verður þær kröfur til atvinnuleikhúss að það höfði bæði til fjöldans og leggi líka undir á hinu listræna sviði. Seinna atriðið tókst vel – hitt síður.
Það læðist að manni sá grunur að í meðvirknissamfélaginu hér norðan heiða, þar sem það telst stór ákvörðun ef pólitíkus opnar munn og gagnrýnir embættismenn því þá gæti einhver farið í fýlu, að menn heykist á að taka á stöðunni heldur leiti limbólausna sem gæti þýtt menningarlegt stórslys. Pólitíkusar hafa komið sér undan því að segja upphátt hverjum staða LA er að kenna. Ekki næst í framkvæmdastjóra LA. Til að styggja engan planar elítan að hætta kannski bara rekstri atvinnuleikhúss hér í bæ!

Hvurslags vitleysa er þetta eiginlega?

Baráttukveðjur
Björn Þorláksson


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718